28 brottfarir í maí

Annan mánuðinn í röð var að jafnaði flogið héðan til útlanda rétt um einu sinni á dag.

Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd: Isavia

Nú er fjöldi Evrópuríkja að opna landamæri sín að einhverju leyti með því fella niður kröfur um tveggja vikna sóttkví. Ísland er eitt þessara landa og gerir Icelandair ráð fyrir samtals fjörutíu og einni ferð í viku til Evrópu og Boston í Bandaríkjunum seinni hlutann í júní.

Það er umtalsvert meiri traffík en hefur verið að undanförnu því í nýliðnum maí voru aðeins farnar tuttugu og átta áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli. Allar nema ein á vegum Icelandair en félagið hefur haldið úti alþjóðaflugi héðan í samstarfi við íslensk stjórnvöld.

Af þessum ferðum voru var tólf til Heathrow flugvallar við London, sjö til Stokkhólms og átta til Boston samkvæmt talningum Túrista. Wizz air var svo með staka brottför til Búdapest.

Í áætlunarflug sitt nýtti Icelandair fjórar mismunandi flugvélar og þar af fór leiguvélin TF-KEX í níu ferðir samkvæmt Flightradar. Sú vél er af gerðinni Boeing 737-800 og er sextán ára gömul. Auk þess fluttu TF-LLX (19 ára), TF-ISS (24 ára) og TF-FIN (22 ára) farþega Icelandair út í heim í maí.