28 brott­farir í maí

Annan mánuðinn í röð var að jafnaði flogið héðan til útlanda rétt um einu sinni á dag.

Úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd: Isavia

Nú er fjöldi Evrópu­ríkja að opna landa­mæri sín að einhverju leyti með því fella niður kröfur um tveggja vikna sóttkví. Ísland er eitt þessara landa og gerir Icelandair ráð fyrir samtals fjörutíu og einni ferð í viku til Evrópu og Boston í Banda­ríkj­unum seinni hlutann í júní.

Það er umtals­vert meiri traffík en hefur verið að undan­förnu því í nýliðnum maí voru aðeins farnar tuttugu og átta áætl­un­ar­ferðir frá Kefla­vík­ur­flug­velli. Allar nema ein á vegum Icelandair en félagið hefur haldið úti alþjóða­flugi héðan í samstarfi við íslensk stjórn­völd.

Af þessum ferðum voru var tólf til Heathrow flug­vallar við London, sjö til Stokk­hólms og átta til Boston samkvæmt taln­ingum Túrista. Wizz air var svo með staka brottför til Búdapest.

Í áætl­un­ar­flug sitt nýtti Icelandair fjórar mismun­andi flug­vélar og þar af fór leigu­vélin TF-KEX í níu ferðir samkvæmt Flig­htradar. Sú vél er af gerð­inni Boeing 737–800 og er sextán ára gömul. Auk þess fluttu TF-LLX (19 ára), TF-ISS (24 ára) og TF-FIN (22 ára) farþega Icelandair út í heim í maí.