29 farþegar í hverri ferð til London

Þær voru ekki þéttsetnar þoturnar sem flugu héðan til höfuðborgar Bretlands í apríl.

terminal2 heathrow
Terminal 2 byggingin við London Heathrow en þar heldur Icelandair til. Mynd: London Heathrow

Í apríl hélt Icelandair úti ferðum héðan til Stokkhólms, Boston og London í samstarfi við íslensk stjórnvöld. Flugu þá þotur Icelandair fjórtán sinnum til Heathrow flugvallar og British Airways fór þaðan tvær ferðir til Íslands í byrjun apríl.

Samtals voru brottfarirnar héðan til London þá sextán talsins og jafn margar voru ferðirnar þaðan til Íslands. Flugleggirnir því þrjátíu og tveir í heildina. Nýbirtar tölur frá breskum flugmálayfirvöldum sýna svo að samtals nýttu 912 farþegar sér þessar ferðir.

Að jafnaði voru því 29 farþegar í hverri þotu sem flaug milli Keflavíkurflugvallar og Heathrow í London í apríl. Sætanýtingin hefur þá verið rétt um sextán prósent ef miðað er við heðfbundna 183 sæta Boeing 757 þotu hjá Icelandair.