Ætla að hefja áætlunarflug til Íslands frá Þýskalandi

Áfram heldur Wizz Air að bæta við ferðum til Íslands og nú frá Dortmund í Þýskalandi.

Mynd: Wizz Air

Nú lok vetrar lagði ungverska flugfélagið Wizz Air niður Íslandsflug sitt frá Riga og Vilnius. Þar með fækkaði evrópsku borgunum sem hægt er að fljúga með félaginu frá Keflavíkurflugvelli niður í átta.

Undir lok maí bætti Wizz Air svo við áætlunarferðum hingað frá Mílanó og nú í morgun hófst sala á flugmiðum með félaginu til Íslands frá þýsku borginni Dortmund.

Fyrsta ferðin er á dagskrá sunnudaginn 9. ágúst og gert er ráð fyrir tveimur brottförum í viku frá Keflavíkurflugvelli út næsta vetur í það minnsta. Til Dortmund hefur ekki áður verið hægt að fljúga beint frá Íslandi.

Gert var ráð fyrir sumarflugi héðan til fimm þýskra borga en þær verða nú sex með þessari viðbót. Úrvalið var reyndar mun meira því síðustu ár hafa borgir eins og Dresden, Köln, Nürnberg, Friedrichshafen, Stuttgart og Bremen dottið út af leiðakerfi Keflavíkurflugvallar.

Auk þess að fljúga hingað frá Mílanó og Dortmund þá býður Wizz Air upp á Íslandsferðir frá fimm pólskum borgum, Búdapest, London og Vínarborg.