Ætla að hleypa Íslendingum á hótel í Kaupmannahöfn

Dönsk stjórnvöld ætla að bakka með kröfuna um að ferðamenn í landinu gisti fyrstu sex næturnar fyrir utan höfuðborgina.

kaupmannahofn yfir

Á mánudaginn opna Danir landamæri sín en þó aðeins fyrir ferðafólki frá Þýskalandi, Noregi og Íslandi. Upphaflega stóð til að heimila erlendu gestunum ekki að tékka sig inn á hótel í Kaupmannahöfn fyrstu sex næturnar. Þannig vildu dönsk stjórnvöld draga úr líkunum á Covid-19 smiti í höfuðborginni.

Nú fyrir stundu gaf aftur á móti dómsmálaráðherra Danmerkur út að túristum yrði þrátt fyrir allt leyft að búa á hótelum og gistihúsum í Kaupmannahöfn frá og með 15.júní. Áfram verður þó gerð krafa um að ferðafólk geti sýnt fram á bókun á sex gistinóttum við komuna til Danmerkur.

Danska ferðaþjónustan hafði gagnrýnt harðlega fyrrnefnt gistibann í Kaupmannahöfn. Sérstaklega þar sem leyfa átti ferðamönnum að spóka sig í borginni yfir daginn.

Á mánudaginn komast flugsamgöngur milli Íslands og Kaupmannahafnar í gang á ný. Icelandair ætlar þá að fljúga níu ferðir í viku til borgarinnar og þaðan munu svo þotur SAS fljúga um það bil annan hvern dag.

Smelltu hér til að bera saman verð á gistingu í Kaupmannahöfn