Allir eldri en 12 ára með grímur í flugi

Icelandair gerir ráðstafanir fyrir farþega og áhafnir næstu vikur og eru fólk hvatt til að koma með fleiri en eina grímu í flugið.

Mynd: Icelandair

Forsvarsfólk Icelandair hefur tekið ákvörðun um að allir áhafnarmeðlimir og farþegar eldri en tólf ára verði með grímur um borð í vélum félagsins nú þegar áætlunarflug eykst á ný.

Eru farþegar hvattir til að koma með sínar eigin grímur en grímur verða einnig tiltækar um borð í vélunum. Mælt er með því að fleiri en ein gríma verði höfð meðferðis fyrir ferðalagið.

„Andlitsgríman má vera hvort sem er heimagerð eða keypt, en hún verður að hylja nef og munn. Taka má grímur niður til að neyta matar og drykkja um borð í vélinni. Farþegar sem finna fyrir flensulíkum einkennum hvattir til að fresta ferðalagi sínu,“ segir í tilkynningu frá Icelandair.

Þar segir að gripið sé til þessa til að gæta fyllsta öryggis og koma í veg fyrir möguleg smit, til viðbótar við aðrar sóttvarnir, svo sem handþvott og notkun handspritts.

Á sama tíma verður þjónusta um borð áfram takmörkuð og verður til að mynda engin matarþjónusta um borð fyrst um sinn en vatnsflöskur verða afhentar þegar gengið er um borð. Þetta er í takt við

Þá verður Saga Shop lokuð að minnsta kosti fyrst um sinn líkt og áður hefur komið fram.

„Félagið mun halda áfram að leggja áherslu á aukin þrif um borð í vélunum. Allir snertifletir eru þrifnir sérstaklega fyrir hvert flug og salerni sótthreinsuð á milli fluga. Ennfremur er vel fylgst með loftgæðum um borð á meðan flugi stendur. Í vélum Icelandair er notast við HEPA (e. High Efficiency Particulate Air) lofthreinsibúnað, sem er samskonar búnaður og notaður er á skurðstofum. Búnaðurinn tryggir að alger loftskipti eiga sér stað 20 til 30 sinnum á hverri klukkustund,“ segir í tilkynningu.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Icelandair.