Allt að 15 lönd fá aðgang að Evrópu

Evrópubúar geta nú í auknum mæli ferðast á milli landa innan álfunnar og nú styttist í að þjóðir utan Evrópu fái líka að komast inn fyrir landamærin.

Fljótlega gætu hingað komið ferðamenn utan Evrópu. MYND: ICELAND.IS

Næstu daga kemur í ljós hvaða tíu til fimmtán þjóðir, utan Evrópu, fá að ferðast til álfunnar frá og með byrjun júlí­mán­aðar. Ekki eru taldar neinar líkur á að Banda­ríkja­menn séu á þeim lista þar sem tíðni nýrra Covid-19 smita þar í landi er ennþá of há.

Aftur á móti er talið líklegt að Evrópa og Schengen svæðið opnist fyrir ferða­fólki frá Kanada. Þó með því skil­yrði að stjórn­völd í Kanada hleypi líka íbúum Evrópu inn fyrir sín landa­mæri.

Sameinuðu arab­ísku fursta­dæmin, Egypta­land, Ísrael, Malasía, Marókkó, Singapúr, Taíland, Tyrk­land og Víetnam eru einnig sögð líkleg til að fá grænt ljós frá ráða­mönnum í Brussel samkvæmt frétt Standby.

Í lok síðustu viku felldi Icelandair niður stærstan hluta af áform­uðum brott­förum sínum til Banda­ríkj­anna í júlí. Samgöngu­ráðu­neytið mun þó áfram kosta flug félagsins til Boston.