Allt að 15 lönd fá aðgang að Evrópu

Evrópubúar geta nú í auknum mæli ferðast á milli landa innan álfunnar og nú styttist í að þjóðir utan Evrópu fái líka að komast inn fyrir landamærin.

Fljótlega gætu hingað komið ferðamenn utan Evrópu. MYND: ICELAND.IS

Næstu daga kemur í ljós hvaða tíu til fimmtán þjóðir, utan Evrópu, fá að ferðast til álfunnar frá og með byrjun júlímánaðar. Ekki eru taldar neinar líkur á að Bandaríkjamenn séu á þeim lista þar sem tíðni nýrra Covid-19 smita þar í landi er ennþá of há.

Aftur á móti er talið líklegt að Evrópa og Schengen svæðið opnist fyrir ferðafólki frá Kanada. Þó með því skilyrði að stjórnvöld í Kanada hleypi líka íbúum Evrópu inn fyrir sín landamæri.

Sameinuðu arabísku furstadæmin, Egyptaland, Ísrael, Malasía, Marókkó, Singapúr, Taíland, Tyrkland og Víetnam eru einnig sögð líkleg til að fá grænt ljós frá ráðamönnum í Brussel samkvæmt frétt Standby.

Í lok síðustu viku felldi Icelandair niður stærstan hluta af áformuðum brottförum sínum til Bandaríkjanna í júlí. Samgönguráðuneytið mun þó áfram kosta flug félagsins til Boston.