Áratuga löngu sambandi Icelandair og Boeing ólík­lega að ljúka

Skilaréttur Icelandair á MAX flugvélum nær trúlega aðeins til þeirra þriggja þota sem bíða við verksmiðjur Boeing vestanhafs. Flugfloti með Airbus og Boeing er því sennileg niðurstaða komist félagið í gegnum núverandi krísu.

Boeing MAX þota Icelandair við Tegel í Berlín í hittifyrra. Mynd: Berlin Airport

Flug­félög eiga rétt á að falla frá kaupum á þotum frá Boeing ef afhending dregst í meira en tólf mánuði. Þetta full­yrti Geir Karlsen, fjár­mála­stjóri Norwegian, í lok síðasta vetrar líkt og Túristi greindi frá. Um svipað leyti fjallaði til dæmis banda­ríska viðskipta­blaðið Forbes einnig um þessa klásúlu í kaup­samn­ingum Boeing.

Þrátt fyrir að skila­rétt­urinn muni vera svona skýr þá hafa fáir kaup­endur nýtt sér hann frá því í mars í fyrra þegar allar MAX þotur voru kyrr­settar í kjölfar tveggja flug­slysa þar sem 346 manns misstu lífið.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur Boeing skilj­an­lega ekki náð að afhenda eina einustu flugvél. Og ennþá á eftir að laga gallana í þeim sem teknar höfðu verið í notkun.

Icelandair er eitt þeirra mörgu flug­fé­laga sem veðjaði á MAX þoturnar og hafði tekið sex þotur í gagnið áður en flug­bannið var sett í fyrra. Þá voru þrjár í viðbót tilbúnar til afhend­ingar við verk­smiðjur Boeing í Banda­ríkj­unum. Samtals keypti Icelandair sextán MAX þotur og það eru því sjö eintök sem á eftir að fram­leiða fyrir félagið. 

Skila­frest­urinn ekki liðinn nema á þremur þotum

Þessa dagana standa yfir samn­inga­við­ræður milli Icelandair Group og Boeing um þær þotur sem ennþá er beðið eftir og mögu­legar skaða­bætur vegna kyrr­setn­ing­ar­innar. Þessum viðræðum miðar ágæt­lega samkvæmt tilkynn­ingu sem félagið sendi frá sér á mánu­daginn.

Túristi hefur ekki fengið svör frá Icelandair né Boeing um hvort þessar viðræður snúist um mögu­leika Icelandair að segja upp kaup­samn­ingi á þessum tíu flug­vélum sem eftir á að afhenda. Það má þó ljóst vera að aðeins þessar þrjár, sem eru tilbúnar út í Banda­ríkj­unum í dag, eru komnar fram yfir fyrr­nefndan tólf mánaða afhend­ing­ar­frest.

Það hefur nefni­lega komið fram í fjár­festa­kynn­ingum Icelandair að félagið gerði aðeins ráð fyrir að hafa níu MAX þotur í flota sínum í fyrra. Það eru þessar sex sem höfðu verið afhentar fyrir kyrr­setn­ingu og þær þrjár sem standa við verk­smiðjur Boeing í dag. Í ár áttu svo fimm þotur að bætast við og tvær á því næsta.

Þessi fyrr­nefndi tólf mánaða afhend­inga­frestur rennur þar með fyrst út á næsta ári fyrir þessar fimm og árið 2022 fyrir síðustu tvær.

Hættu­legt fordæmi fyrir Boeing

Ef staðan er í raun sú að Icelandair vilji falla frá kaupum á MAX þotunum tíu, sem eftir á að afhenda, þá verður að teljast ólík­legt að Boeing sleppi Icelandair auðveld­lega. Sérstak­lega í ljósi þess að þannig samkomulag væri ekki hægt að fela í bókhaldinu líkt og gert var með skaða­bæt­urnar sem Boeing greiddi Icelandair í tvígang á síðasta ári vegna kyrr­setn­ing­ar­innar. 

Þar með yrði það opin­bert ef Icelandair myndi komast hjá núgild­andi kaup­samn­ingi og þá myndu senni­lega stjórn­endur fleiri flug­fé­laga vilja það sama og jafnvel meira. Stað­reyndin er nefni­lega sú vegna kórónu­veirukrepp­unnar sjá flug­félög fram á minni eftir­spurn eftir ferða­lögum og þar með er þörfin fyrir nýjar flug­vélar minni en áður.

Að Boeing fari að gefa svona fordæmi með samn­ingi við lítinn viðskiptavin eins og Icelandair verður að teljast hæpið nú þegar meira að segja Boeing berst fyrir lífi sínu.

Icelandair er vissu­lega tryggur viðskipta­vinur banda­ríska fyrir­tæk­isins til áratuga en er þó aðeins með frátekinn sára­lítinn hluta af öllum þeim MAX flug­vélum sem selst hafa. Þannig bíða um fjögur hundruð MAX þotur tilbúnar við verk­smiðjur Boeing í dag og Icelandair á bara þrjár af þeim. Og af þessum hátt í fjögur þúsund þotum sem hafa verið pant­aðar, en ekki fram­leiddar, þá eru eðeins sjö á vegum Icelandair. 

Til saman­burðar á Norwegian pöntuð hundrað eintök. Það félag hefur ekki, þrátt fyrir sinn lífróður, nýtt sér fyrr­nefndan skila­rétt sem fjár­mála­stjóri flug­fé­lagsins vakti máls á í apríl síðast­liðinn.  

Viðbúið að farþegar verði á varð­bergi gagn­vart MAX

Fjöldi flug­for­stjóra hefur síðast­liðið ár lýst því yfir að félögin þeirra ætli að standa við pant­anir sínar hjá Boeing. Nú síðast forstjóri Alaska Airlines fyrr í þessum mánuði. Og stjórn­endur Icelandair sjá líklega not í vélunum líka en stefna félagsins var að vera með allt að 26 MAX þotur í rekstri árið 2025 samkvæmt flot­stefnu félagsins sem birt var stuttu eftir að þoturnar voru kyrr­settar í mars 2019. 

Í núver­andi umhverfi er sá fjöldi MAX þota vissu­lega ósenni­legur enda rambar flug­geirinn á barmi gjald­þrots og enginn veit hvenær þessar þotur fá að taka á loft á ný. Við þess háttar aðstæður má líka gera ráð fyrir að Icelandair geti fengið viðbótar eintök af MAX þotum á sérstak­lega góðum kjörum. Það mun þó kosta sitt að bregðast við vantrausti farþega á þessum flug­vélum þegar að því kemur og ávinn­ing­urinn kannski ekki svo mikill. 

Vanda­málið við núver­andi flug­flota Icelandair er líka að Boeing 757 og 767 þotur félagsins eru komnar á aldur. Þær eru eyðslu­frekar og menga því meira en verj­andi er. Boeing er aftur á móti ekki með neinar þotur sem geta leyst þessar gömlu af hólmi. Þar með þarf Icelandair að halla sér að Airbus en þær flug­vélar fást nú á mun betri kjörum en áður líkt og stjórn­ar­formaður PLAY full­yrti í síðustu viku.

Að hefja þjálfun áhafna á Airbus þotur

Í þeirri nauð­vörn sem Icelandair er í núna gætu stjórn­endur þess mögu­lega undir­búið sókn með því að boða þjálfun flug­manna og flug­freyja á Airbus A320 þotur. Þar með fengist vísbending um hvert félagið stefnir komist það í gegnum núver­andi krísu.

Og ef samn­ingar Icelandair við stétt­ar­félög flug­manna, flug­freyja og flug­virkja leyfa þá gæti félagið á sama tíma óskað eftir starfs­fólki með rétt­indi á Airbus þotur og þannig valdið usla í röðum PLAY. Þetta fagfólk þyrfti þá að íhuga hvort betra væri að veðja á PLAY eða Icelandair. Senni­legast er Icelandair þó bundið af því að ráða starfs­fólk inn á ný eftir starfs­aldri.


Ef þér þykir gagn í skrifum Túrista þá sérðu kannski tæki­færi í að styrkja útgáfuna. Sjá hér.