Samfélagsmiðlar

Áratuga löngu sambandi Icelandair og Boeing ólíklega að ljúka

Skilaréttur Icelandair á MAX flugvélum nær trúlega aðeins til þeirra þriggja þota sem bíða við verksmiðjur Boeing vestanhafs. Flugfloti með Airbus og Boeing er því sennileg niðurstaða komist félagið í gegnum núverandi krísu.

Boeing MAX þota Icelandair við Tegel í Berlín í hittifyrra.

Flugfélög eiga rétt á að falla frá kaupum á þotum frá Boeing ef afhending dregst í meira en tólf mánuði. Þetta fullyrti Geir Karlsen, fjármálastjóri Norwegian, í lok síðasta vetrar líkt og Túristi greindi frá. Um svipað leyti fjallaði til dæmis bandaríska viðskiptablaðið Forbes einnig um þessa klásúlu í kaupsamningum Boeing.

Þrátt fyrir að skilarétturinn muni vera svona skýr þá hafa fáir kaupendur nýtt sér hann frá því í mars í fyrra þegar allar MAX þotur voru kyrrsettar í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns misstu lífið.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur Boeing skiljanlega ekki náð að afhenda eina einustu flugvél. Og ennþá á eftir að laga gallana í þeim sem teknar höfðu verið í notkun.

Icelandair er eitt þeirra mörgu flugfélaga sem veðjaði á MAX þoturnar og hafði tekið sex þotur í gagnið áður en flugbannið var sett í fyrra. Þá voru þrjár í viðbót tilbúnar til afhendingar við verksmiðjur Boeing í Bandaríkjunum. Samtals keypti Icelandair sextán MAX þotur og það eru því sjö eintök sem á eftir að framleiða fyrir félagið. 

Skilafresturinn ekki liðinn nema á þremur þotum

Þessa dagana standa yfir samningaviðræður milli Icelandair Group og Boeing um þær þotur sem ennþá er beðið eftir og mögulegar skaðabætur vegna kyrrsetningarinnar. Þessum viðræðum miðar ágætlega samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi frá sér á mánudaginn.

Túristi hefur ekki fengið svör frá Icelandair né Boeing um hvort þessar viðræður snúist um möguleika Icelandair að segja upp kaupsamningi á þessum tíu flugvélum sem eftir á að afhenda. Það má þó ljóst vera að aðeins þessar þrjár, sem eru tilbúnar út í Bandaríkjunum í dag, eru komnar fram yfir fyrrnefndan tólf mánaða afhendingarfrest.

Það hefur nefnilega komið fram í fjárfestakynningum Icelandair að félagið gerði aðeins ráð fyrir að hafa níu MAX þotur í flota sínum í fyrra. Það eru þessar sex sem höfðu verið afhentar fyrir kyrrsetningu og þær þrjár sem standa við verksmiðjur Boeing í dag. Í ár áttu svo fimm þotur að bætast við og tvær á því næsta.

Þessi fyrrnefndi tólf mánaða afhendingafrestur rennur þar með fyrst út á næsta ári fyrir þessar fimm og árið 2022 fyrir síðustu tvær.

Hættulegt fordæmi fyrir Boeing

Ef staðan er í raun sú að Icelandair vilji falla frá kaupum á MAX þotunum tíu, sem eftir á að afhenda, þá verður að teljast ólíklegt að Boeing sleppi Icelandair auðveldlega. Sérstaklega í ljósi þess að þannig samkomulag væri ekki hægt að fela í bókhaldinu líkt og gert var með skaðabæturnar sem Boeing greiddi Icelandair í tvígang á síðasta ári vegna kyrrsetningarinnar. 

Þar með yrði það opinbert ef Icelandair myndi komast hjá núgildandi kaupsamningi og þá myndu sennilega stjórnendur fleiri flugfélaga vilja það sama og jafnvel meira. Staðreyndin er nefnilega sú vegna kórónuveirukreppunnar sjá flugfélög fram á minni eftirspurn eftir ferðalögum og þar með er þörfin fyrir nýjar flugvélar minni en áður.

Að Boeing fari að gefa svona fordæmi með samningi við lítinn viðskiptavin eins og Icelandair verður að teljast hæpið nú þegar meira að segja Boeing berst fyrir lífi sínu.

Icelandair er vissulega tryggur viðskiptavinur bandaríska fyrirtækisins til áratuga en er þó aðeins með frátekinn sáralítinn hluta af öllum þeim MAX flugvélum sem selst hafa. Þannig bíða um fjögur hundruð MAX þotur tilbúnar við verksmiðjur Boeing í dag og Icelandair á bara þrjár af þeim. Og af þessum hátt í fjögur þúsund þotum sem hafa verið pantaðar, en ekki framleiddar, þá eru eðeins sjö á vegum Icelandair. 

Til samanburðar á Norwegian pöntuð hundrað eintök. Það félag hefur ekki, þrátt fyrir sinn lífróður, nýtt sér fyrrnefndan skilarétt sem fjármálastjóri flugfélagsins vakti máls á í apríl síðastliðinn.  

Viðbúið að farþegar verði á varðbergi gagnvart MAX

Fjöldi flugforstjóra hefur síðastliðið ár lýst því yfir að félögin þeirra ætli að standa við pantanir sínar hjá Boeing. Nú síðast forstjóri Alaska Airlines fyrr í þessum mánuði. Og stjórnendur Icelandair sjá líklega not í vélunum líka en stefna félagsins var að vera með allt að 26 MAX þotur í rekstri árið 2025 samkvæmt flotstefnu félagsins sem birt var stuttu eftir að þoturnar voru kyrrsettar í mars 2019. 

Í núverandi umhverfi er sá fjöldi MAX þota vissulega ósennilegur enda rambar fluggeirinn á barmi gjaldþrots og enginn veit hvenær þessar þotur fá að taka á loft á ný. Við þess háttar aðstæður má líka gera ráð fyrir að Icelandair geti fengið viðbótar eintök af MAX þotum á sérstaklega góðum kjörum. Það mun þó kosta sitt að bregðast við vantrausti farþega á þessum flugvélum þegar að því kemur og ávinningurinn kannski ekki svo mikill. 

Vandamálið við núverandi flugflota Icelandair er líka að Boeing 757 og 767 þotur félagsins eru komnar á aldur. Þær eru eyðslufrekar og menga því meira en verjandi er. Boeing er aftur á móti ekki með neinar þotur sem geta leyst þessar gömlu af hólmi. Þar með þarf Icelandair að halla sér að Airbus en þær flugvélar fást nú á mun betri kjörum en áður líkt og stjórnarformaður PLAY fullyrti í síðustu viku.

Að hefja þjálfun áhafna á Airbus þotur

Í þeirri nauðvörn sem Icelandair er í núna gætu stjórnendur þess mögulega undirbúið sókn með því að boða þjálfun flugmanna og flugfreyja á Airbus A320 þotur. Þar með fengist vísbending um hvert félagið stefnir komist það í gegnum núverandi krísu.

Og ef samningar Icelandair við stéttarfélög flugmanna, flugfreyja og flugvirkja leyfa þá gæti félagið á sama tíma óskað eftir starfsfólki með réttindi á Airbus þotur og þannig valdið usla í röðum PLAY. Þetta fagfólk þyrfti þá að íhuga hvort betra væri að veðja á PLAY eða Icelandair. Sennilegast er Icelandair þó bundið af því að ráða starfsfólk inn á ný eftir starfsaldri.


Ef þér þykir gagn í skrifum Túrista þá sérðu kannski tækifæri í að styrkja útgáfuna. Sjá hér.

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …