Bæta við brottförum til Evrópu en fella niður flug til Bandaríkjanna

Óvissa ríkir um hvort Bandaríkjamönnum verði heimilað að fljúga til Evrópu í næsta mánuði og þar með tekur flugáætlun Icelandair breytingum.

hamborg elbphilharmonie thies raetzke 0009
Hamborg, næst fjölmennsta borg Þýskalands, bætist nú við sumaráætlun Icelandair. Mynd: Ferðamálaráð Hamborgar

Sú flugáætlun sem Icelandair birti um miðjan þennan mánuð gerði ráð fyrir áætlunarferðum til sjö bandarískra borga í næsta mánuði. Nú liggur aftur á móti fyrir að ekki verður af þessu vegna þeirrar óvissu sem ríkir um opnun ytri landamæra Evrópusambandsins og Schengen-svæðisins.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er nú aðeins gert ráð fyrir áframhaldandi flugi til Boston tvisvar í viku og svo verður einni ferð í viku til Seattle bætt við áætlunina. Seinni hlutann í júlí er svo áformað að fljúga einnig til JFK flugvallar í New York og Toronto í Kanada.

Á sama tíma og flugið vestur um haf verður skorið niður þá bætast við ferðir til Evrópu. Þannig verður tíðni brottfara til núverandi áfangastaða í álfunni aukinn í sumum tilfellum og svo hefst á flug á ný til Brussel og Hamborg. Einnig verður ferðunum til Billund í Danmörku fjölgað og flugið þangað starfrækt yfir lengri tíma en ráðgert var.