Bann við hræódýrum flugmiðum

Austurrísk stjórnvöld ætla að rétta Austrian Airlines hjálparhönd en þó með skilyrðum sem verða látin ganga jafnt yfir alla á markaðnum.

vin2
Frá Vínarborg í Austurríki. Þangað er hægt að fljúga beint frá Keflavíkurflugvelli með bæði Austrian Airlines og Wizz Air. Mynd: Ferðamálaráð Vínarborgar

„Flugmiðar sem seldir eru á afar lágu verði grafa undan umhverfispólitík og launakjörum,“ fullyrti Leonore Gewessler, umhverfisráðherra Austurríkis, í blaðamannafundi í gær. Þar var tilkynnt að austurísk stjórnvöld ætla að veita flugfélaginu Austrian Airlines, sem tilheyrir þýsku Lufthansa samsteypunni, 450 milljón evra. Það jafngildir um 68 milljörðum króna.

Þessum stuðningi fylgja þó ákveðin skilyrði um verðlagningu á flugmiðum. „Hér eftir verður ekki mögulegt að selja flugmiða undir kostnaðarverði,“ útskýrði umhverfisráðherrann og vísaði til þess að austurríska ríkisstjórnin ætlar að leiða í lög 40 evra lágmarksverð á flugmiðum. Það eru um sex þúsund krónur. „Tími farmiða á eina evru er liðinn,“ bætti ráðherrann við.

Til samanburðar má þess geta að ódýrustu farmiðarnir með Wizz Air frá Íslandi til Vínarborgar í Austurríki í sumar kosta um 7500 krónur samkvæmt athugun Túrista.

Gewessler, umhverfisráðherra, kemur úr flokki Græningja og hafa flokksmenn lýst því yfir nú í kórónaveirukrísunni að auknar kröfur í umhverfismálum verði að fylgja mögulegum ríkisstuðningi við flugrekendur.

Meðal þess sem Græningjar hafa beitt sér fyrir er bann við styttri flugferðum þar sem farþegar eiga þess kost að taka lest. Á sama tíma vill flokkurinn að lagt verði á sérstakt umhverfisgjald upp á þrjátíu evrur, 4500 kr., ef flogið er styttra en 350 kílómetra.