Danir og Svíar ætla að styðja enn frekar við bakið á SAS

Danska og sænska ríkið fara með samtals með um þrjátíu prósent hlut í skandinavíska flugfélaginu SAS. Félagið þarf nú að auknu fé að halda og það mun að töluverðu leyti koma úr ríkissjóði.

Mynd: SAS

Strax í upphafi kórónaveirufaraldursins gáfu danskir og sænskir ráðamenn út að SAS fengi opinberar lánaábyrgðir. Norska ríkið, sem seldi sinn hlut í SAS fyrir tveimur árum, gaf einnig út lánaloforð til handa flugfélaginu.

Nú nærri þremur mánuðum síðar er ljóst að SAS þarf meira fé því í tilkynningu sem félagið sendi frá sér nú í morgun segir að fjárþörfin sé um 12,5 milljarðar sænskra króna. Það jafngildir um 181 milljarði íslenskra króna.

Í tilkynningunni segir jafnframt að ríkisstjórn Svíþjóðar hafi lýst yfir vilja sínum nú í dag til að leggja félaginu til fimm milljarða sænskra króna (um 73 milljarða kr.). Danska ríkisstjórnin lýsir einnig yfir stuðningi við áform um endurfjármögnun SAS en hefur þó ekki gefið út hversu háa upphæð danski ríkissjóðurinn mun leggja flugfélaginu til.

Forsvarsfólk SAS biðlar svo til norskra ráðamanna að leggja einnig sín lóð á vogarskálarnar. Þrátt fyrir að SAS sé ekki lengur í eigu norska ríkisins.

Í dag er sænski ríkissjóðurinn stærsti hluthafinn í SAS með 14,82 prósent hlutafjár og Danir eiga 14,24 prósent. Norðmenn áttu um tíund í félaginu þegar þeir seldu sumarið 2018.

Stefnt er að því að stjórnendur SAS leggi fram í lok þessa mánaðar áætlun um hvernig verði staðið að fjárhagslegri endurskipulagninu flugfélagsins. Viðræður standa nú yfir við skuldabréfaeigendur og aðra kröfuhafa.

Á sama tíma er ætlunin að skera niður kostnað verulega með því að endursemja við birgja, lækka markaðskostnað og draga úr vöru- og tækniþróun. Eins verður móttöku á nýjum flugvélum seinkað eins og kostur er.