Eigendur WOW fyrir ítalska þing­nefnd

Forsvarsfólk USAerospace ætlar ekki aðeins að endurreisa WOW air heldur líka Alitalia. Í vikunni voru þau spurð af ítölskum þingmönnum hvers vegna endurkoma WOW air hefði dregist á langinn.

Það hefur lengi verið á brattan að sækja hjá Alitalia, stærsta flug­fé­lagi Ítalíu. Fyrir­tækið hefur af þeim sökum verið í opin­berri eigu síðustu misseri eftir að áform um að koma því í hendur erlendra flug­fé­laga gengu ekki eftir.

Forsvars­fólk endur­reisnar WOW air, undir forystu Michele Roosevelt Edwards, stjórn­ar­for­manns USAerospace Partners, lýsti svo strax í byrjun kórónu­veirukrepp­unnar áhuga sínum á að blása lífi í Alitalia.

Þennan áhuga sinn hafa þau ítrekað síðan þá líkt og Reuters fjallaði um nú í sumar­byrjun. Í þessari viku mætti svo Michelle Edwards fyrir samgöngu­nefnd ítalska þingsins ásamt Carlo Goria sem leiðir starf­semi USAerospace á Ítalíu.

Samkvæmt frétt Corriere della Sera, eins útbreidd­asta dagblaðs Ítalíu, þá voru þau meðal annars spurð út í áform sín með Alitalia en líka út í reynslu sína af sams­konar verk­efnum. Til að mynda afhverju banda­ríska fyrir­tækinu væri treyst­andi fyrir Alitalia þegar endur­reisn WOW air hefði dregist á langinn.

Svar Edwards og Goria var á þá leið að þau hafi hægt á áætl­unum sínum varð­andi WOW strax í október, nóvember og desember þegar þau höfðu veður af heims­far­aldr­inum. Þau ítrekuðu þó að WOW air myndi hefja sig til flugs fljót­lega en vildu ekki nefna neinar dagsetn­ingar

Í þessu samhengi má rifja upp á að það var fyrst um áramótin sem fyrstu tilfellin af Covid-19 voru skráð samkvæmt WHO, alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­un­inni.

USAerospace hyggst setja einn og hálfan millj­arða evra, um 234 millj­arða króna, í uppbygg­ingu Alitalia. Og undir stjórn banda­rísku fjár­fest­anna mun Alitalia fókusa fjöl­skyldu á leið í frí en ekki viðskipta­ferða­langa. Flug­floti ítalska félagsins verður einnig stækk­aður og engum starfs­mönnum sagt upp. Ef allt gengur upp verður Alitalia farið að skila hagnaði eftir 30 til 36 mánuði samkvæmt frétt Corriere della Sera.