Eigendur WOW fyrir ítalska þingnefnd

Forsvarsfólk USAerospace ætlar ekki aðeins að endurreisa WOW air heldur líka Alitalia. Í vikunni voru þau spurð af ítölskum þingmönnum hvers vegna endurkoma WOW air hefði dregist á langinn.

Það hefur lengi verið á brattann að sækja hjá Alitalia, stærsta flugfélagi Ítalíu og síðustu misseri hefur félagið verið í opinberri eigu. Áform um að koma því í hendur erlendra flugfélaga hafa ekki gengið eftir.

Forsvarsfólk endurreisnar WOW air, undir forystu Michele Roosevelt Edwards, stjórnarformanns USAerospace Partners, lýsti hins vegar yfir áhuga, strax í byrjun kórónuveirukreppunnar, á að blása lífi í Alitalia.

Þennan vilja sinn hafa þau ítrekað síðan þá líkt og Reuters fjallaði um nú í sumarbyrjun. Í þessari viku mætti svo Michelle Edwards fyrir samgöngunefnd ítalska þingsins ásamt Carlo Goria sem leiðir starfsemi USAerospace á Ítalíu.

Samkvæmt frétt Corriere della Sera, eins útbreiddasta dagblaðs Ítalíu, þá voru þau meðal annars spurð út í áform sín með Alitalia en líka út í reynslu sína af samskonar verkefnum. Til að mynda afhverju bandaríska fyrirtækinu væri treystandi fyrir Alitalia þegar endurreisn WOW air hefði dregist á langinn.

Svar Edwards og Goria var á þá leið að þau hafi hægt á áætlunum sínum varðandi WOW strax í október, nóvember og desember þegar þau höfðu veður af heimsfaraldrinum. Þau ítrekuðu þó að WOW air myndi hefja sig til flugs fljótlega en vildu ekki nefna neinar dagsetningar

Í þessu samhengi má rifja upp á að það var fyrst um áramótin sem fyrstu tilfellin af Covid-19 voru skráð samkvæmt WHO, alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

USAerospace hyggst setja einn og hálfan milljarða evra, um 234 milljarða króna, í uppbyggingu Alitalia. Og undir stjórn bandarísku fjárfestanna mun Alitalia fókusa fjölskyldu á leið í frí en ekki viðskiptaferðalanga. Flugfloti ítalska félagsins verður einnig stækkaður og engum starfsmönnum sagt upp. Ef allt gengur upp verður Alitalia farið að skila hagnaði eftir 30 til 36 mánuði samkvæmt frétt Corriere della Sera.