Eitt hundrað flugmenn SAS þiggja starfslokasamning

Hópur af hæst launuðu flugmönnum SAS hafa kosið að láta af störfum í tengslum við sparnaðaraðgerðir vegna kórónaveirukreppunnar.

MYND: SAS

Fjöldauppsagnir eru meðal þeirra aðgerða sem stjórnendur SAS hafa gripið til vegna kórónuveirukreppunnar. Samtals verður um fimm þúsund starfsmönnum sagt upp eða tæplega helmingi þeirra sem unnu hjá félaginu áður en útbreiðsla Covid-19 setti reksturinn úr skorðum.

Af öllum þessum fjölda starfsmanna þá stendur til að segja upp 650 flugmönnum. Það verða þó ekki eingöngu þeir sem eru með lægstan starfsaldur sem hverfa á braut því um eitt hundrað eldri flugmenn SAS hafa þegið einskonar starfslokasamning.

Sá hljóðar upp á 11 mánaða laun auk þriggja mánaða orlofs og það er því umtalsverður hluti af hæst launuðu flugstjórum SAS sem fer af launaskrá í lok næsta sumars.

Af þessum eitt hundrað flugstjórum sem þáðu tilboð SAS þá eru fjörutíu og fimm Danir. Flestir í þeim hópi munu vera að nálgast sextugt samkvæmt frétt Checkin.dk. Sá yngsti er 53 ára en sá elsti 63 ára.

Það er venja í fluggeiranum að láta starfsaldur ráða ferðinni þegar gripið er til uppsagna flugliða og það á til að mynda við hjá Icelandair. Þeir sem hafa unnið lengst halda þá vinnunni.

SAS er ekki eina flugfélagið sem reynt hefur að höfða til eldri starfsmanna nú þegar fjöldauppsagnir eru í pípunum.

Þannig mun hið bandaríska Delta ætla að bjóða eldri flugmönnum föst laun í 36 mánuði eða þangað til þeir verða 65 ára. Hin stóru flugfélögin vestanhafs hafa einnig gert eldri starfsmönnum sínum starfsloka samninga.