Er áttundi stærsti hluthafinn í Icelandair Group

Fjárfestirinn Högni Pétur Sigurðsson á í dag 3,1 prósent hlut í Icelandair samsteypunni.

Mynd: Icelandair / Sigurjón Ragnar sr-photos.com

Á nýuppfærðum lista Icelandair Group yfir tuttugu stærstu hluthafa í fyrirtækinu sést að bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management hefur síðustu daga haldið áfram að selja bréf fyrirtækinu.

Nú nemur hlutur sjóðsins 11,64 prósentum en hann var 13,5 prósent áður en stjórnendur PAR Capital hófu að selja bréfin í smáskömmtum nú í vor.

Nýliði á þessum nýjasta lista Icelandair, yfir stærstu hluthafa fyrirtækisins, er eignarhaldsfélagið Zukunft sem er í sæti númer tuttugu. Zukunft er skráð fyrir rúmlega 45 milljónum hluta í Icelandair eða 0,83 prósent. Aftur á móti er lífeyrissjóðurinn Festa farinn út af topplistanum.

Það er Högni Pétur Sigurðsson, fjárfestir og eigandi Hard Rock Café, sem er skráður eigandi Zukunft. Annað félag í hans eigu, Nautica ehf., hefur lengi verið á listanum yfir stærstu hluthafana og sömuleiðis Högni Pétur sjálfur en eign hans er merkt „Eintaklingur 1″ á heimasíðu Icelandair Group.

Samtals á Högni í dag 3,1 prósent af hlutafé Icelandair samsteypunni sem gerir hann að áttunda stærsta hluthafanum með tæpa 168 milljón hluti. Markaðsvirði bréfanna er um 340 milljónir króna í dag en gengi þessa stærsta ferðaþjónustufyrirtækis landsins hefur lækkað um nærri þrjá fjórðu í ár.

Hafa ber í huga að þó Zukunft komist nú á lista yfir stærstu hluthafana þá er ekki þar með sagt að það sé eingöngu vegna kaupa á nýjum bréfum. Þannig gæti Högni hafa fært hluta af eign Nautica yfir í Zukunft því hlutur þess fyrrnefnda hefur dregist aðeins saman.

Ekki náðist í Högna Pétur við vinnslu þessarar fréttar.