Fara eina ferð í viku til Nuuk

Áætlunarferðir Air Iceland Connect til Grænlands hafa legið niðri síðustu mánuði vegna Covid-19. Í næsta mánuði tekur félagið upp þráðinn á ný.

airicelandconnect
Mynd: Air Iceland Connect

Grænlendingar opnuðu landamæri sín á ný 15. júní en aðeins gagnvart íbúum Færeyja, Íslands, Danmerkur og Þýskalands. Og til að byrja með verður í mesta lagi sex hundruð flugfarþegum frá þessum löndum hleypt inn í landið.

Þetta þýðir þó að Air Iceland Connect getur á ný flogið til Grænlands og mun félagið fljúga vikulega til Nuuk frá og með byrjun júlí. Að sögn Þóru Eggertsdóttur hjá flugfélaginu þá liggur ekki fyrir að svo stöddu hvernig dagskráin verður í ágúst.

Systurfélögin Air Iceland Connect og Icelandair voru sameinuð fyrr í ár en það fyrrnefnda hefur lengi verið umsvifamikið í áætlunarferðum til Grænlands. Þannig gerði dagskrá þess í ár fyrir reglulegum ferðum til fimm ólíkra flugvalla á Grænlandi.