Ferðamenn svindla sér inn í Danmörku

Það hefur verið lítið mál fyrir ferðafólk að komast framhjá reglum danskra stjórnvalda um inngöngu.

Við Havnebadet við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn. Mynd: Visit Copenhagen

Það var í byrjun síðustu viku sem dönsk stjórnvöld opnuðu landamærin fyrir Þjóðverjum, Norðmönnum og Íslendingum. Þó er gerð sú krafa að ferðafólk framvísi bókun á gistingu í alla vega sex nætur við komuna. Annars fær viðkomandi ekki að fara inn í landið.

Fljótlega eftir opnun fóru danskir hóteleigendur hins vegar að taka eftir því að þónokkuð var um afbókanir á sex nátta gistingum. Sérstaklega í þeim tilfellum þar sem staðfesting hafði verið gefin út líkt og fjallað er um í JyskeVestkysten.

Þar lýsir jóskur hótelstjóri því til að mynda hversu einfalt það er fyrir fólk að afbóka gistingu eða komast hjá því að greiða fyrir pantanir. Eftir sitja þá hóteleigendur með tóm herbergi á meðan meintir gestir spóka sig um í Danmörku.