Finna fyrir miklum áhuga á Hálendisrútunni

Sérstakar ferðir sniðnar að þeim sem ætla í göngur í sumar en vilja síður vera á eigin bíl.

Kynnisferða bjóða upp á áætlunarferðir inn í Þórsmörk, Landmannalaugar og að Skógum í sumar. Mynd: Kynnisferðir

Hálendisrúta Kynnisferða leggur í hann i dag en þessar ferðir eru sniðnar að þeim sem vilja ferðast um Þórsmörk, Landmannalaugar eða Skóga á eigin vegum í sumar.

„Við höfum verið að fá eitthvað af bókunum og finnum fyrir miklum áhuga Íslendinga á þessu en margir vilja fyrst sjá hvernig veðrið er. Við hvetjum þó fólk til að bóka sem fyrst þar sem við fellum niður ferðir ef farþegafjöldinn er lítill,“ segir Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða.

Hann segir að farþegar Hálendisrútunnar geti valið að taka hana úr Reykjavík eða mæta á eigin bíl á Hvollsvöll. „Þeir sem ætla að ganga Fimmvörðuháls frá Skógum og inn í Þórsmörk geta tekið rútuna á Skóga og sent farangurinn með bílnum inn í Þórsmörk. Sama geta þeir gert sem ætla að labba Laugaveginn frá Landmannalaugum í Þórsmörk,“ bætir Björn við.

Hann bendir jafnframt á að búast megi við að árnar verði vatnsmiklar í sumar þar sem töluverður snjór sé enn á hálendinu. „Það er því nauðsynlegt að fara með gát ef ferðast er á eigin vegum.“

Auk þessara áætlunarferða Hálendisrútunnar þá flytur hún einnig sérhópa upp á hálendið ef eftir því er óskað, til að mynda vinnustaði og vinahópa.

Stærsta sérverkefnið á því sviði er Laugavegshlaupið sem fer fram 18. júlí. Kynnisferðir sjá um allar ferðir í tengslum við hlaupið og segir Björn að gert sé ráð fyrir samtals verði um fimm hundrað starfsmenn, keppendur og áhorfendur ferjaðir á mótsstað.