Finna fyrir miklum áhuga á Hálend­isrút­unni

Sérstakar ferðir sniðnar að þeim sem ætla í göngur í sumar en vilja síður vera á eigin bíl.

Kynnisferða bjóða upp á áætlunarferðir inn í Þórsmörk, Landmannalaugar og að Skógum í sumar. Mynd: Kynnisferðir

Hálend­isrúta Kynn­is­ferða leggur í hann i dag en þessar ferðir eru sniðnar að þeim sem vilja ferðast um Þórs­mörk, Land­manna­laugar eða Skóga á eigin vegum í sumar.

„Við höfum verið að fá eitt­hvað af bókunum og finnum fyrir miklum áhuga Íslend­inga á þessu en margir vilja fyrst sjá hvernig veðrið er. Við hvetjum þó fólk til að bóka sem fyrst þar sem við fellum niður ferðir ef farþega­fjöldinn er lítill,” segir Björn Ragn­arsson, forstjóri Kynn­is­ferða.

Hann segir að farþegar Hálend­isrút­unnar geti valið að taka hana úr Reykjavík eða mæta á eigin bíl á Hvollsvöll. „Þeir sem ætla að ganga Fimm­vörðu­háls frá Skógum og inn í Þórs­mörk geta tekið rútuna á Skóga og sent farang­urinn með bílnum inn í Þórs­mörk. Sama geta þeir gert sem ætla að labba Lauga­veginn frá Land­manna­laugum í Þórs­mörk,” bætir Björn við.

Hann bendir jafn­framt á að búast megi við að árnar verði vatns­miklar í sumar þar sem tölu­verður snjór sé enn á hálendinu. „Það er því nauð­syn­legt að fara með gát ef ferðast er á eigin vegum.”

Auk þessara áætl­un­ar­ferða Hálend­isrút­unnar þá flytur hún einnig sérhópa upp á hálendið ef eftir því er óskað, til að mynda vinnu­staði og vina­hópa.

Stærsta sérverk­efnið á því sviði er Lauga­vegs­hlaupið sem fer fram 18. júlí. Kynn­is­ferðir sjá um allar ferðir í tengslum við hlaupið og segir Björn að gert sé ráð fyrir samtals verði um fimm hundrað starfs­menn, kepp­endur og áhorf­endur ferj­aðir á móts­stað.