Fjölmargir hafa nálgast sumargjöfina

Á föstudaginn opnar einn vinsælasti ferðamannastaður landsins á ný.

Mynd: Bláa lónið

Bláa lónið opnar á ný á föstudaginn eftir að hafa verið lokað síðustu tólf vikur. Ekki er gert ráð fyrir miklum fjölda gesta í lónið fyrstu dagana enda er tíðni flugferða til landsins ennþá takmörkuð eins og Bára Mjöll Þórðardóttir, upplýsingafulltrúi Bláa lónsins, bendir á.

Um langt árabil hefur Bláa lónið verið einn allra vinsælasti ferðamannastaður landsins og segir Bára Mjöll að Íslendingar hafi að jafnaði verið vel innan við fimm prósent gesta.

Það hlutfall fer sennilega hækkandi nú í sumar enda óljóst hversu margir ferðamenn koma til landsins næstu vikur. Á sama tíma eru vísbendingar um að margir Íslendingar haldi sig heima í fríinu.

Og nú í sumar býður Bláa lónið öllum þeim sem eru fjórtán ára og eldri upp á fimm þúsund króna inneign upp í svokallaðan Premium aðgang Bláa Lónsins. Þess háttar kostar vanalega 8.990 krónur.

Kynning á þessu tilboði hófst í lok síðustu viku og segir Bára Mjöll að nú þegar hafi fjölmargir nálgast sumargjöfina. „Við erum þó ekki að gera ráð fyrir sama gestafjölda og við eigum að venjast á þessum árstíma en hlökkum til að taka á móti fólki á ný og vonum að sem flestir geri sér glaðan dag og heimsæki okkur í sumar,“ segir Bára Mjöll.