Flugfarþegum hafði fækkað verulega áður en krísan hófst

Um 136 þúsund færri farþegar nýttu sér flug milli Íslands og Bretlands fyrstu þrjá mánuði ársins. Samdrátturinn var skiljanlega mestur í mars en líka verulegur í janúar og febrúar.

Mynd: London Heathrow

Nýliðinn vetur var flogið héðan reglulega til sjö breskra flugvalla sem er fækkun um tvo frá þarsíðasta vetri. Á sama tíma hefur tíðni ferða til borga eins og London og Manchester dregist saman og sérstaklega eftir fall WOW air.

Af þessum sökum fljúga nú færri milli Íslands og Bretlands. Fyrstu tvo mánuði ársins fækkaði farþegunum til að mynda um rúmlega 48 þúsund samkvæmt tölum breskra flugmálayfirvalda.

Í mars nam samdrátturinn 87 þúsund farþegar en það var einmitt um miðjan þann mánuð sem flugumferð stöðvaðist nær alveg vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

Á fyrsta fjórðungi ársins fækkaði flugfarþegunum í Íslandsflugi til og frá Bretlandi því um tæplega 136 þúsund. Það jafngildir 31 prósenti.

Líkt og Túristi greindir nýverið frá þá er Heathrow á ný sú flughöfn í Bretlandi sem flestir nýta til að fljúga til Íslands.