Greiddi atkvæði með ríkisstuðningi eftir allt saman

Nú liggur fyrir að þýska ríkið eignast að minnsta kosti tuttugu prósent hlut í Lufthansa samsteypunni.

Mynd: Lufthansa Group

Þýska ríkið mun leggja Lufthansa Group til níu milljarða evra og eignast um leið fimmtungs hlut í þessari stærstu flugfélagasamsteypu Evrópu. Þetta liggur fyrir eftir hluthafafund í fyrirtækinu fyrr í dag.

Útlit var fyrir að stærsti einkafjárfestirinn í samsteypunni, Heinz-Hermann Thiele, myndi fella þessa aðkomu þýska ríkisins og höfðu stjórnendur Lufthansa því hvatt almenna hluthafa til að fjölmenna á fundinn til að draga úr vægi Thiele.

Þrátt fyrir það var þátttakan dræm en það kom ekki að sök því Thiele snérist hugur fyrir fundinn og lýsti yfir stuðningi við aðgerðirnar áður en hluthafafundurinn hófst. Strax í kjölfarið hækkuðu hlutabréf í Lufthansa Group umtalsvert.