Hætta á að björgunarpakki Lufthansa verði felldur

Stærsti hluthafinn í Lufthansa Group segist ekki sannfærður um ágæti þess að þýska ríkið leggi fyrirtækinu til pening gegn því að fá hlutabréf á móti.

Heinz Hermann Thiele, sjötti ríkasti Þjóðverjinn, er stærsti hluthafinn í Lufthansa. MYND: KNORR-BROMSE

Þýski auðkýfingurinn Heinz-Hermann Thiele hefur síðustu vikur keypt það mikið af hlutabréfum í Lufthansa Group að hann á orðið um fimmtán prósent hlutafjár í fyrirtækinu. Þar með er hann stærsti einstaki hluthafinn í þessari stærstu flugfélagasamsteypu Evrópu.

Thiele er aftur á móti ekki sáttur við nýlegt samkomulag stjórnenda Lufthansa Group og þýskra stjórnvalda þess efnis að hið opinbera eignist fimmtungs hlut í flugfélaginu gegn níu milljarða evra fjárhagsaðstoð.

Í viðtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung í gær lýsti Thiele því nefnilega yfir að hann teldi að leita ætti annarra leiða til að koma Lufthansa til bjargar. Nefndi hann sérstaklega opinberan stuðning í gegnum þýska þróunarbankann KfW Bankengruppe.

Forsvarsfólk Lufthansa Group brást við þessum yfirlýsingum Thiele í morgun með því að gefa út tilkynningu þar sem ítrekað er fyrir hluthöfum að mæta til atkvæðagreiðslu um björgunarpakkann þann 25. júní nk.

Í tilkynningunni er tekið skýrt fram að ef fulltrúar innan við helmings hlutafjár mæta til atkvæðagreiðslunnar þá þurfi tveir þriðju að samþykkja ríkisaðstoðina. Þar með væru miklar líkur á að Thiele felli tillöguna með sínum 15 prósentum atkvæða.

Aftur á móti þarf aðeins hreinan meirihluta atkvæða ef meira en helmingur hluthafa tekur þátt í henni. Þar með yrði vægi Thiele minna.

Rekstur Lufthansa Group einskorðast ekki við samnefnt þýskt flugfélag því stærstu flugfélög Sviss, Austurríkis og Belgíu heyra einnig undir samsteypuna. Lággjaldaflugfélagið Eurowings sömuleiðis og nokkur minni flugfélög.

Lufthansa er að hefja flug til Íslands á ný frá bæði Frankfurt og Munchen.