Hátt í níu hundruð farþegar eiga bókað far hingað með Icelandair

Á morgun kemst áætlunarflug til og frá landinu í fastari skorður enda opnar þá fjöldi Evrópuríkja landamæri sín á ný.

Það verða fleiri á ferðinni í Leifsstöð á morgun en verið hefur síðustu vikur. Mynd: Isavia

Þotur Icelandair munu fljúga til tvisvar sinnum til Kaupmannahafnar á morgun og svo eina ferð til Óslóar, Stokkhólms og Frankfurt. Flugvélarnar munu allar snúa tilbaka til Keflavíkurflugvallar samdægurs.

Ferðirnar til Íslands, þennan fyrsta dag opinna landamæra, verða því fimm talsins. Og fyrir helgi voru rétt tæplega níu hundruð farþegar bókaðir í þær samkvæmt yfirliti sem sent var á starfsfólk Icelandair fyrir helgi og Túristi hefur séð.

Farþegar á leið úr landi á morgun eru nokkru færri eða tæplega sjö hundruð talsins samkvæmt yfirlitinu. Hafa ber í huga að þessar tölur byggja á bókunarstöðunni fyrir helgi.

Það stefnir engu að síður í að hluti af þotum Icelandair verði þéttsetnar á morgun. Þó verður að hafa í huga að vegna heimsfaraldursins og ýmissa ferðatakmarkanna þá má gera ráð fyrir að fjöldi farþega mæti ekki í flug næstu vikur og mánuði.

Eins og áður hefur komið fram á verður hægt að taka sýni úr allt að tvö þúsund farþegum á dag á Keflavíkurflugvelli. En auk Icelandair þá mun SAS fljúga eina ferð hingað á morgun frá Kaupmannahöfn og Atlantic Airways frá Færeyjum.

Þota færeyska flugfélagsins lendir á Keflavíkurflugvelli um kaffileytið en þá koma líka fjórar af fimm þotum Icelandair til landsins. Það má því búast við einhverri bið á þessum tíma dags eftir sýnatöku.