Hér mega íslenskir ferðamenn gista í nágrenni við Kaupmannahöfn

Þeir sem ætla til Danmerkur í sumar verða að sýna fram á að þeir séu með bókun á gistingu þar í landi fyrstu sex næturnar en þó ekki í höfuðborginni sjálfri.

Hvíta svæðið sýnir hvar mörk Kaupmannahafnar liggja. Skjámynd af vef Kaupmannahafnar.

Flugsamgöngur milli Íslands og Danmerkur hafa legið niðri í heimsfaraldrinum en á mánudaginn verður á ný hægt að fljúga héðan til Kaupmannahafnar. Dönsk yfirvöld ætla þá að opna landamæri sín gagnvart túristum frá Þýskalandi, Noregi og Íslandi.

Aðeins þeir sem geta sýnt fram á bókun á gistingu í Danmörku í sex daga fá að fara inn landið. Og það sem meira er þá má fólk ekki búa á hóteli inní Kaupmannahöfn fyrst um sinn jafnvel þó ferðamönnum sé frjálst að verja deginum í borginni.

Það þarf þó ekki að fara langt frá miðborg Kaupmannahafnar til að finna hótel sem eru utan við borgina sjálfa. Því eins og sjá má á kortinu hér fyrir ofan, þar sem höfuðborgarsvæðið er merkt með hvítum lit, þá má til að mynda gista í nágrenni við flugvöllinn út á Kastrup. Þangað gengur metrólestin beint úr bænum.

Einnig er ekki langt í úthverfi eins og Rødovre og Hvidovre. Svo er fjöldi huggulegra hótel meðfram strandlengjunni norður frá Kaupmannahöfn.

Samkvæmt upplýsingum frá Horesta, samtökum gisti- og hóteleigenda í Danmörku, þá ættu ferðamenn að geta flutt sig á hótel inn í Kaupmannahöfn eftir að hafa gist fyrir utan borgina fyrstu sex næturnar.

Hér má gera verðsamanburð á hótelum í Danmörku en Túristi mælist til að þeir sem ætla að bóka sér gistingu inn í Kaupmannahöfn í sumar verði í beinu sambandi við viðkomandi hótel eða gististað til að ganga úr skugga um að flytja megi sig inn í borgina eftir sex nætur fyrir utan. Leitarvélina má líka nota til sjá úrval af gististöðum í nágrannasveitarfélögum Kaupmannahafnar.