Hræódýrt í fyrstu ferðina héðan til Ítalíu

Þú kemst fyrir lítið til Mílanó í byrjun júlí en flugferðin hækkar þó umtalsvert í verði ef taka á farangur með í ferðalagið.

Frá Mílanó. MYND: Matteo Raimondi / UNSPLASH

Það var í lok maí sem stjórnendur Wizz Air tilkynntu um opnun nýrrar starfsstöðvar á Malpensa flugvelli í Mílanó á Ítalíu. Þar ætlar félagið að vera með fimm farþegaþotur og fljúga þeim til tuttugu áfangastaða.

Einn þeirra er Ísland og í boði verða þrjár ferðir í viku nú í sumar og næsta vetur. Fyrsta brottför er á dagskrá eftir akkúrat tvær vikur eða föstudaginn 3. júlí.

Af fargjöldunum að dæma þá er nóg af lausum miðum í þessa jómfrúarferð. Ódýrasta sætið kostar nefnilega aðeins 29,9 evrur eða um 4.600 krónur. Flug tilbaka til Íslands er svo í mörgum tilfellum jafn ódýrt.

Þó bera að hafa í huga að handfarangurs heimildin hjá Wizz Air takmarkst við eina tösku sem kemst undir sætið fyrir framan farþegann. Að borga fyrir innritaðan farangur hækkar fargjaldið svo töluvert því borga þarf 8.500 krónur undir töskuna, hvora leið.

Auk Wizz Air þá býður Icelandair einnig upp á áætlunarflug til Mílanó en félagið hefur þó ennþá ekki sett þær ferðir á dagskrá á ný.