Icelandair hættir við sumarflug til níu flug­valla

Flugfélög víða um heim hafa skorið verulega niður sumaráætlun sína vegna heimsfaraldursins og Icelandair er þar engin undantekning.

vancouver yfir d
Séð yfir Vancouver en kanadíska borgin er ein þeirra sem dottin er út af sumaráætlun Icelandair. Mynd: Ferðamálaráð Vancouver

Borg­irnar Barcelona á Spáni og Manchester á Englandi duttu út af sumaráætlun Icelandair fyrir hálfum mánuði síðan. Á sama tíma tók félagið úr sölu ferðir til Phila­delphia og Port­land í Banda­ríkj­unum, kanadísku borg­anna Montreal, Edmonton og Vancouver auk Billund í Danmörku, Bergen í Noregi og Gatwick flug­vallar við London.

Nú er liggur fyrir að ekkert verður af ferðum til þessara átta flug­valla í sumar. Einnig falla niður ferðir til Anchorage í Alaska. Þetta stað­festir Ásdís Ýr Péturs­dóttir, upplýs­inga­full­trúi Icelandair, í svari við fyrir­spurn Túrista.

Hún undir­strikar að þessi breyting á aðeins við um núver­andi sumaráætlun en ekki komandi vetr­aráætlun. En Icelandair hefur til að mynda flogið til Gatwick allt árið um kring og stóran hluta ársins til Port­land, Vancouver, Edmonton og Bergen.

Með þessum breyt­ingum þá falla niður allar flug­sam­göngur frá Íslandi til flestra þessara borga því Icelandair var eitt um ferð­irnar til þeirra allra ef London og Manchester eru frátaldar.

Það leit að vísu út fyrir að félagið fengi samkeppni í Íslands­flugi frá Phila­delphia í sumar en American Airlines hætti við flug sitt hingað frá borg­inni í sumar. Og ekkert verður heldur að ferðum Air Canada hingað frá Montreal og Toronto í ár.