Jákvæðar fréttir fyrir ferðaskrifstofur

Stjórnarformaður Travelco og Heimsferða fagnar nýrri tillögu ráðherra ferðamála um lánveitingu til ferðaskrifstofa. Bæði þeirra sem skipuleggja ferðir fyrir Íslendinga út í heim og eins þeirra sem taka á móti erlendum ferðamönnum hér á landi.

Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður Travelco og Heimsferða. Mynd: Isavia

„Við fögnum því að finna eigi lausn á stöðu ferðaskrifstofa vegna endurgreiðslukröfunnar en síðustu þrjá mánuði höfum við bent á það að aðgerða er þörf. Þetta eru því jákvæðar fréttir,“ segir Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður Travelco og Heimsferða, aðspurður um tillögur ráðherra ferðamála um stofnun ábyrgðasjóðs.

Hugmyndin er sú að ferðaskrifstofur geti þá fengið lánað úr þessum sjóði til að endurgreiða neytendum andvirði þeirra ferða sem felldar hafa verið niður síðustu mánuði. Upphæðina greiða ferðaskrifstofunnar svo ríkissjóði tilbaka síðar.

Jón Karl segir að það verði forvitnilegt að sjá útfærsluna á þessum tillögum ráðherra og til að mynda hversu langt tímabil ábyrgðin nær yfir. En það var um miðjan mars sem landamæri lokuðust og yfirvöld hér heima og víða um heim lögðust gegn ferðalögum. Síðan þá hafa allar ferðir verið felldar niður.

Haft var eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, í fréttum RÚV, að það komi bæði neytendum og ferðaskrifstofum til góða að þessi lánaleið verði farin.

„Við erum að vinna að útfærslu sem ég held að geti verið lausn sem að allir geti sætt sig við þ.e.a.s. við erum með engum hætti að ganga á rétt neytenda nema síður sé, veitir þetta súrefni inn til ferðaskrifstofa sem er mjög nauðsynlegt og er alls ekki sársaukafullt fyrir ríkissjóð,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra.