Meirihluti bókana kemur frá Íslendingum

Booking.com er mjög umsvifamikið í sölu á gistingu á heimsvísu og líka hér á landi. Hjá fyrirtækinu sjást merki um aukinn áhuga útlendinga á Íslandi en heimamenn sjálfir standa áfram stærstum hluta.

Flestar bókanir hjá Booking.com hér á landi eru í höfuðborginni. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Nú eru stjórnvöld víða í Evrópu að aflétta ferðatakmörkunum og í takt við það hefur umferðin um Keflavíkurflugvöll aukist umtalsvert. Það eru þó aðallega Íslendingar sjálfir sem síðustu vikur hafa bókað gistingu á íslenskum hótelum í gegnum bókunarvef Booking.com.

Þetta kemur fram í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Túrista. Þar segir jafnframt að merki séu um aukinn áhuga á landinu frá viðskiptavinum í Þýskalandi, Danmörku, Ítalíu og Frakklandi.

Flestar bókanir hjá Booking.com nú í júní eru á gististöðum í Reykjavík en Akureyri kemur þar á eftir og svo Reykjanesbær, Vík og Höfn. Flestir panta gistingu á hótelum en gistiheimili er næst vinsælust.

Hjá Booking sjást almennt jákvæð teikn um aukinn áhuga á ferðalögum og það á einnig við um Ísland.

Ef þér þykir gagn í skrifum Túrista þá sérðu kannski tækifæri í að styrkja útgáfuna. Sjá hér.