Mismikið að gera á bílaleigunum við Keflavíkurflugvöll í dag

Meirihluti ferðamanna sem hingað kemur leigir sér bíl í tengslum við Íslandsreisuna. Og hluti þeirra sem kemur til landsins í dag á frátekin bíl við Leifsstöð.

Mynd: Isavia

„Það er að kvikna ljós og við höfum tekið eftir aukningu í bókunum. Í dag munum afhenda um fjörutíu bílaleigubíla við Keflavíkurflugvöll og einhverja tugi á dag eftir það í vikunni,“ segir Sigfús B. Sigfússon, forstjóri bílaleigunnar Hertz, aðspurður um gang mála nú þegar flugumferð er að aukast á ný.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar – Höldur, segir þetta þó fara rólega af stað og í dag séu aðeins örfáar bókanir. Hann vill meina að sú ákvörðun að skilda alla í skimun við komuna til landsins og rukka 15 þúsund krónur það hafi fælt frá og fjölgað afbókunum.

„Ég get nefnt sem dæmi þýska ferðaskrifstofu sem við vinnum með. Þau voru bjartsýn þar sem kúnnarnir þeirra tóku vel í að geta afhent vottorð um skimun frá Þýskalandi sem kostar ekkert þar í landi. Nú er það ekki lengur hægt. Þau þurfa því að borga og vita ekki áður en lagt er af stað hvort þau eru jákvæð eða neikvæð eða eigi á hættu að sýkjast í fluginu á leiðinni til landsins. Þessi þýska ferðaskrifstofa segist því vera að fá mikið af afbókunum,“ útskýrir Steingrímur.

„Ég skil illa afhverju öll Evrópa er að opna en við með lokað upp að einhverju marki því hér þurfa allir í sóttkví eða skimun sem þarf að greiða fyrir,“ bætir Steingrímur við.

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá er ekki gerð krafa um skimanir við landamæri þeirra evrópuríkja sem nú eru að opna landamæri sín. Í Hollandi, Tékklandi og Eistlandi hafa stjórnvöld til að mynda flokkað þjóðir álfunnar eftir líkunum á að þær beri kórónaveiruna.

Í Eistlandi er miðað við að opna landamærin gagnvart löndum þar sem dauðsföll vegna Covid eru færri en 15 á hverja 100 þúsund íbúa. Í Tékklandi verður þegnum nítján Evrópulanda frjálst að ferðast til landsins án þess að fara í sýnatöku á meðan aðrar þurfa í þess háttar. Hollendingar takmarka ferðafrelsið við allar Evrópuþjóðir nema Breta, Svía og Dani.