Náðu samkomulagi við Boeing vegna MAX

Þörfin fyrir nýjar flugvélar er ekki eins mikil í dag og því hefur TUI samið við Boeing um að bíða með afhendingu MAX þota og um leið verður innborgunum seinkað.

TUI rekur sitt eigið flugfélag og flýgur þannig viðskiptavinum sínum út um allan heim. Mynd: TUI

Ferðaskrifstofuveldið TUI rekur sitt eigið flugfélag og þar var Boeing MAX ætlað stórt hlutverk. Stjórnendur þess höfðu þannig pantað sjötíu og sex eintök af þotunum.

Aðeins fimmtán höfðu verið afhentar í mars í fyrra þegar allar flugvélar af þessari gerð voru kyrrsettar í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns misstu lífið.

Öfugt við Icelandair þá sótti TUI ekki skaðabætur til Boeing í fyrra vegna kyrrsetningarinnar en núna í morgun tilkynnti félagið að náðst hefði samkomulag við flugvélaframleiðandann.

Það felur í sér að Boeing mun bæta TUI stærstan hluta þess fjárhagslega skaða sem kyrrsetning þotanna hefur valdið.

Á sama tíma verður afhendingu nýrra flugvéla seinkað um að jafnaði tvö ár. Þetta eykur sveigjanleikan í rekstri TUI og styrkir um leið lausafjárstöðu fyrirtækisins samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Að öðru leyti ríkir trúnaður um samkomulag TUI og Boeing. Það sama má segja um þá tvo samninga sem Icelandair hefur gert við bandaríska flugvélaframleiðandann um skaðabætur vegna stöðunnar á MAX þotunum. Ekki liggur fyrir hversu háar þær voru og hvort samkomulagið hafi einnig falið í sér breytta áætlun á afhendingu þeirra tíu þota sem Icelandair á eftir að fá.

Það kom þó fram á hluthafafundi Icelandair í lok maí að viðræður eru í gangi við Boeing verksmiðjurnar vegna MAX þotanna.