Ósátt við að Noregur opni ekki fyrir þýsku ferðafólki

Forsvarsfólk norskrar ferðaþjónustu vill að norsk stjórnvöld geri eins og þau dönsku og opni landið fyrir Þjóðverjum.

Það stefnir í að þýskir ferðamenn komist ekki til Noregs í sumar. Mynd: Robin Strand / Visit Norway

Yfir sumarmánuðina eru Þjóðverjar þriðja fjölmennasta þjóðin í hópi ferðamanna hér á landi. Og vægi þýskra túrista er mikið víða annars staðar í álfunni. Þar á meðal í Noregi.

„Þýskir ferðamenn eru ótrúlega mikilvægir fyrir norska ferðaþjónustu,“ segir Kristin Devold, framkvæmdastjóri samtaka norskra ferðaþjónustfyrirtækja, í viðtali við Aftenposten. Þar gagnrýnir hún að norsk stjórnvöld ætla eingöngu opnað landið gagnvart Dönum þann fimmtánda júní.

Á sama tíma ætla Danir aftur móti að hleypa Þjóðverjum og Íslendingum inn fyrir sín landamæri.

Þjóðverjar geta líka valið úr ferðum til fjölda annarra Evrópulanda, þar á meðal Íslands, frá og með miðjum júní. Þannig ætlar Icelandair að fljúga níu sinnum í viku til Þýskalands frá og með næsta mánudegi og Lufthansa hefur flug hingað á ný eftir mánaðamót.