Óska eftir heimild til fjárhagslegra endurskipulagningar

Stjórn ferðaþjónustufyrirtækisins Allrahanda GL ehf. hefur óskað eftir greiðsluskjóli á meðan unnið er að því að koma félaginu í rekstrarhæft form.

Umferðamiðstöð Gray Line við Skarfabakka. Mynd: Gray Line

Síðustu þrjá mánuði hafa tekjur Allrahanda GL, sem er rekstraraðili Gray Line hér á landi, aðeins numið 680 þúsund krónum. Mánuðina þrjá fyrir Covid-19 námu þær hins vegar um 700 milljónum króna.

„Til að bæta gráu ofan á svart hafa orðið miklar tafir á greiðslu útistandandi viðskiptakrafan í eigu Allrahanda GL. Það segir sig því sjálft að staðan er gríðarlega erfið,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir jafnframt að stjórnendur Allrahanda GL ehf hafi unnið að því að selja eignir til að greiða skuldir, m.a. var félagið Hveravellir ehf selt í byrjun maí og fasteign félagsins að Klettagörðum 4 auglýst til sölu í þessari viku.

„Lánardrottnar félagsins hafa sýnt okkur mikinn skilning en þolinmæði þeirra hefur eðlilega sín takmörk. Stjórn félagsins hefur því tekið þá ákvörðun að óska eftir greiðsluskjóli í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi þann 16 júní sl. Með þessu móti telur stjórn félagsins að jafnræði lánadrottna og kröfuhafa félagsins verði best tryggt á sama tíma og neytt verður þeirra úrræða sem lögin mæla fyrir um,“ segir í tilkynningu.