Play gæti stækkað flota sinn í 10 til 15 þotur næsta sumar

Forsvarsfólk Play horfir ekki aðeins til þess að leigja Airbus flugvélar heldur líka að kaupa því nú fást nýjar þotur á hagstæðu verði.

Hjá Play er stefnt að því að hefja áætlunarflug í haust. Tölvuteikning: Play

„Auðvitað hefur allt aðdraganda en hæglega gætu menn verið komnir með 6 til 8 vélar strax í haust og 10 til 15 vélar næsta sumar ef þyrfti. Landslagið á flugvélaleigumarkaði hefur breyst mjög mikið á síðastliðnum tveimur
eða þremur mánuðum og kjörin allt önnur í dag en bara síðustu áramót, enda fleiri þúsund vélar orðnar heimilislausar,“ segir Skúli Skúlason, stjórnarformaður Play, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Play horfir ekki þó ekki aðeins til þess að leigja flugvélar heldur líka kaupa því að sögn Skúla er í dag hægt að fá glænýjar flugvélar hjá Airbus á hagstæðu verði.

Þess má geta að þegar mest lét voru tuttugu og tvær þotur í flota WOW air. Þau tvö ár sem félagið skilaði hagnaði voru flugvélarnar þó mun færri. Árið 2015 voru þær sex og tólf árið eftir.