Reikna með 85 til 95 prósent færri farþegum í sumar

Útlitið er dökkt á fjölförnustu flughöfn Norðurlanda.

Frá Kaupmannahafnarflugvelli. Þessa dagana er hægt að fljúga þangað frá Keflavíkurflugvelli með bæði Icelandair og SAS. Mynd: CPH

Það er von á þrjátíu og einni farþegaþotu til Kaupmannahafnar í dag frá útlöndum og þar af eru tvær á vegum Icelandair. Umferðin er því ennþá mjög takmörkuð um flugvöllinn við Kastrup en hann hefur verið fjölfarnasta flughöfn Norðurlanda um langt árabil.

Dönsk stjórnvöld hafa aðeins opnað landið fyrir ferðafólki frá Þýskalandi, Noregi og Íslandi og það hefur sín áhrif á flugumferðina í Kaupmannahöfn. Þangað koma þó farþegaþotur frá fleiri löndum en þessum þremur en þeir farþegar sem eiga ekki heima í Danmörku verða að halda áfram í flugi eitthvert annað.

Vegna þessara takmarkanna þá reikna stjórnendur Kaupmannahafnarflugvallar með því að fjöldi farþega í flugstöðinni í sumar verðir 85 til 95 prósent minni en á sama tíma í fyrra.

„Hinn gríðarlegi samdráttur í fjölda flugferða og flugfarþega hefur valdið mikilli krísu í dönskum fluggeira. Og nú sjáum við fram á rólegasta sumarið í manna minnum,“ segir Peter Krogsgaard, yfirmaður viðskiptasviðs Kaupmannahafnarflugvallar, í tilkynningu.

Það ríkir vaxandi óþol í dönskum ferðageira vegna stefnu dönsku ríkisstjórnarinnar varðandi opnun landamæranna. Meðal þeirra sem hana gagnrýna er Lars Løkke Rasmussen, fyrrum forsætisráðherra. Hann situr í utanríkismálanefnd danska þingsins og ætlar að beita sér fyrir frekari opnun landamæra Danmerkur líkt og sjá má í tísti hans hér fyrir neðan.