Reikna með margfalt fleiri flugferðum í júlí

Þotur Icelandair verða farnar að fljúga héðan um tuttugu sinnum á dag þegar komið verður fram í miðjan júlí.

Farþegahópurinn í innritunarsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar gæti stækkað hratt næstu vikur í takt við stóraukin umsvif Icelandair.

Flugáætlun Icelandair í þessari viku og þeirri næstu gerir ráð fyrir 38 brottförum í hvorri viku. Strax í byrjun júlí tvöfaldast svo ferðafjöldinn og verður hann kominn upp í allt að 134 brottfarir í viku frá Keflavíkurflugvelli vikuna 13. til 19. júlí.

Þetta má sjá í nýrri flugáætlun fyrir fyrstu þrjár vikurnar í júlí sem Icelandair birti í gær. Samkvæmt henni verður um fjórða hver ferð félagsins til bandarískra borga þegar komið verður fram í miðjan næsta mánuð.

Spurð um þessi áform þá segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að áætlunin byggi á því að afkastageta í skimun á farþegum í Leifsstöð aukist og að Bandaríkin opnist og sömuleiðis ytri landamæri Schengen svæðisins.

Á nýju áætlunnni er líka flug til Billund í Danmörku en áður hafði félagið gefið út að ferðirnar þangað yrðu felldar niður í sumar. Ásdís segir að með þessari breytingu sé verið að bregðast við aukinni eftirspurn eftir flugi til Billund.

Hana megi meðal annars rekja til þess að upphaflega var sett bann við því að útlendingar gistu á hótelum í Kaupmannahöfn nú fyrst eftir að landamæri hafa verið opnuð. Dönsk stjórnvöld breyttu þó um stefnu í síðustu viku.

Billund er á miðju Jótlandi og samkvæmt tölum frá dönsku hagstofunni búa 3.355 íslenskir ríkisborgarar í þessum hluta Danmerkur. En af fréttum gærdagsins að dæma þá var töluvert um Íslendinga, búsetta í útlöndum, í þotunum sem lentu á Keflavíkurflugvelli í gær.