Rekstur systurfélags British Airways stöðvast

Austurríska lágfargjaldaflugfélagið LEVEL Europe flýgur mögulega ekki fleiri farþegum.

Mynd: LEVEL

Fyrr í dag óskuðu stjórnendur austurríska lágfargjaldaflugfélagsins LEVEL eftir greiðslustöðvun. Félagið tilheyrir IAG samsteypunni en innan hennar eru líka flugfélög eins og British Airways, Iberia, Aer Lingus og Vueling.

Greiðslustöðvunin nær aðeins til evrópska hluta starfseminnar því áfram munu þotur LEVEL frá Evrópu yfir til Norður- og Suður-Ameríku.

Evrópski hluti LEVEL var reyndar ekki stór því í flota þess félags voru aðeins sex Airbus þotur og gerði það út frá Schiphol í Amsterdam og svo flugvellinum í Vínarborg.

Upphaflega var félagið stofnað til að taka yfir starfsemi flyNiki í Austurríki en IAG varð undir í baráttunni við Ryanair um þrotabú þess félags. Forsvarsfólk IAG hélt samt til streytu áformum sínum um að hefja rekstur lágfargjaldaflugfélags í Austurríki en í dag játuðu þau sig sigruð og báru fyrir sig heimsfaraldurinn sem Covid-19 hefur orsakað.