Saga Shop lokuð og veitingaþjónusta takmörkuð

Þjónusta um borð í flugvélunum sem fljúga til og frá landinu næstu vikur verður minni en áður var.

Farþegar Icelandair geta fengið hressingu í háloftunum í flugi félagsins til Evrópu en hjá SAS verða engar veitingar á boðstólum. Mynd: Icelandair

Nýbirt flugáætlun Icelandair fyrir seinni hluta þessa mánaðar gerir ráð fyrir fjörutíu og einni brottför í viku frá Keflavíkurflugvelli. Til samanburðar fór félagið samtals tuttugu og sjö ferðir í maí.

Á sama tíma og félagið setur fleiri flugvélar í loftið þá verður veitingaþjónusta í háloftunum takmörkuð við nokkra innpakkaða valkosti og þónokkuð af drykkjum segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúa Icelandair.

Segja má að þetta sé í takt við þær aðgerðir sem keppinautar Icelandair hafa boðað til að draga úr líkum á Covid-19 smiti um borð. Sum félög, t.d. SAS, ganga þó ennþá lengra því þar verður engin þjónusta um borð næstu vikur. Það félag hefur einmitt flug til Íslands frá Ósló og Kaupmannahöfn eftir tíu daga.

Auk þess að takmarka úrval á veitingum þá hefur forsvarsfólk Icelandair tekið ákvörðun um að sala á tollfrjálsum varningi úr Saga Shop hefjist ekki á ný fyrr en 1. september.