Samið um aukið vinnuframlag flugfreyja og -þjóna

Ekki liggur fyrir hvort Flugfreyjufélag Íslands hafi fylgt fordæmi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og gefið frá sér gamalt hvíldarákvæði í samningum við Icelandair.

Mynd: Icelandair / Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands hafa skrifað undir nýjan kjarasamning sem gildir til 30. september 2025. Í tilkynningu segir að samningurinn sé í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika fyrir félagið en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur flugfreyja og flugþjóna.

Í tilkynningunni kemur ekki fram hvaða þættir það eru í nýja samningnum sem tryggja eiga aukið vinnuframlag. Og þá hvort Flugfreyjufélag Íslands hafi gefið eftir sérstakt ákvæði sem felur í sér að flugfreyjur og -þjónar megi í mesta lagi vinna fimmtíu blokktíma á fimmtán dögum.

Félaga íslenskra atvinnuflugmanna sættist á að fella niður þessa reglu í samningum sínum við Icelandair í maí og Icelandair krafðist þess sama af flugfreyjum líkt og Túristi greindi frá nýverið.

Flugfélagið vildi einnig fella niður þá reglu að flugfreyjan sem stjórnar vinnu úr aftara eldhúsi og þá almennu farþegarými væri fastráðin. Í staðinn vildi Icelandair hækka hlutfall fastráðinna flugfreyja yfir vetrarmánuðina.

„Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) hefur frá upphafi þessarar löngu og flóknu samningalotu fundið til ábyrgðar og sýnt mikinn samningsvilja. Líkt og flugmenn og flugvirkjar hafa flugfreyjur og flugþjónar ætíð verið tilbúin til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og mæta fyrirtækinu á erfiðum tímum. Starfsöryggi félagsmanna FFÍ var eitt af aðaláhersluatriðum samninganefndar í viðræðunum. Með nýjum samningi kom FFÍ til móts við Icelandair í því gjörbreytta landslagi sem blasir við fyrirtækinu og gerir því kleift að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika félagsins,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, í tilkynningu.

Og haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að það sé virkilega ánægjulegt að hafa gengið frá langtímasamningi við flugfreyjur og flugþjóna því það sé mikilvægur þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og liður í að auka samkeppnishæfni þess til lengri tíma.

„Töluverðar breytingar til einföldunar voru gerðar frá fyrri samningi sem fela í sér aukið vinnuframlag og aukinn sveigjanleika til þróunar á leiðakerfi Icelandair en samningurinn tryggir jafnframt góð kjör og sveigjanleika fyrir starfsfólk. Með þessum samningi eru flugfreyjur og flugþjónar að leggja sitt af mörkum til að styrkja rekstrargrundvöll Icelandair til framtíðar,“ bætir Bogi við.