Samið um aukið vinnu­framlag flug­freyja og ‑þjóna

Ekki liggur fyrir hvort Flugfreyjufélag Íslands hafi fylgt fordæmi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og gefið frá sér gamalt hvíldarákvæði í samningum við Icelandair.

Mynd: Icelandair / Sigurjón Ragnar / sr-photos.com

Icelandair og Flug­freyju­félag Íslands hafa skrifað undir nýjan kjara­samning sem gildir til 30. sept­ember 2025. Í tilkynn­ingu segir að samn­ing­urinn sé í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnu­framlag og sveigj­an­leika fyrir félagið en á sama tíma verja ráðstöf­un­ar­tekjur flug­freyja og flug­þjóna.

Í tilkynn­ing­unni kemur ekki fram hvaða þættir það eru í nýja samn­ingnum sem tryggja eiga aukið vinnu­framlag. Og þá hvort Flug­freyju­félag Íslands hafi gefið eftir sérstakt ákvæði sem felur í sér að flug­freyjur og ‑þjónar megi í mesta lagi vinna fimmtíu blokktíma á fimmtán dögum.

Félaga íslenskra atvinnuflug­manna sættist á að fella niður þessa reglu í samn­ingum sínum við Icelandair í maí og Icelandair krafðist þess sama af flug­freyjum líkt og Túristi greindi frá nýverið.

Flug­fé­lagið vildi einnig fella niður þá reglu að flug­freyjan sem stjórnar vinnu úr aftara eldhúsi og þá almennu farþega­rými væri fast­ráðin. Í staðinn vildi Icelandair hækka hlut­fall fast­ráð­inna flug­freyja yfir vetr­ar­mán­uðina.

„Samn­inga­nefnd Flug­freyju­fé­lags Íslands (FFÍ) hefur frá upphafi þess­arar löngu og flóknu samn­ingalotu fundið til ábyrgðar og sýnt mikinn samn­ings­vilja. Líkt og flug­menn og flug­virkjar hafa flug­freyjur og flug­þjónar ætíð verið tilbúin til að leggja sitt lóð á vogar­skál­arnar og mæta fyrir­tækinu á erfiðum tímum. Starfs­ör­yggi félags­manna FFÍ var eitt af aðaláherslu­at­riðum samn­inga­nefndar í viðræð­unum. Með nýjum samn­ingi kom FFÍ til móts við Icelandair í því gjör­breytta lands­lagi sem blasir við fyrir­tækinu og gerir því kleift að auka samkeppn­is­hæfni og sveigj­an­leika félagsins,” segir Guðlaug Líney Jóhanns­dóttir, formaður Flug­freyju­fé­lags Íslands, í tilkynn­ingu.

Og haft er eftir Boga Nils Boga­syni, forstjóra Icelandair Group, að það sé virki­lega ánægju­legt að hafa gengið frá lang­tíma­samn­ingi við flug­freyjur og flug­þjóna því það sé mikil­vægur þáttur í fjár­hags­legri endur­skipu­lagn­ingu félagsins og liður í að auka samkeppn­is­hæfni þess til lengri tíma.

„Tölu­verðar breyt­ingar til einföld­unar voru gerðar frá fyrri samn­ingi sem fela í sér aukið vinnu­framlag og aukinn sveigj­an­leika til þróunar á leiða­kerfi Icelandair en samn­ing­urinn tryggir jafn­framt góð kjör og sveigj­an­leika fyrir starfs­fólk. Með þessum samn­ingi eru flug­freyjur og flug­þjónar að leggja sitt af mörkum til að styrkja rekstr­ar­grund­völl Icelandair til fram­tíðar,“ bætir Bogi við.