Samningar við flugstéttir duga ekki einir sér

Langtíma kjarasamningar við flugmenn, flugvirkja og flugfreyjur liggja nú fyrir en ekki hefur náðst samkomulag við helstu kröfuhafa Icelandair samsteypunnar.

MYND: BERLIN AIRPORT

Stjórnendur Icelandair lögðu ofurkapp á að ná langtíma kjarasamningum við flugmenn, flugfreyjur og flugvirkja nú í sumarbyrjun. Þess háttar samningar voru að þeirra mati forsenda fyrir því að fjárfestar myndu leggja félaginu til um þrjátíu milljarða króna í boðuðu hlutafjárútboði.

Þessir kjarasamnigar liggja nú fyrir en þrátt fyrir það verður að fresta hlutafjárútboði Icelandair enn um sinn. Upphaflega var gert ráð fyrir að fjárfestakynning yrði birt þann 15. júní sl. en því var svo seinkað um hálfan mánuð eða til dagsins í dag. Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair nú í morgunsárið er nú bundnar væntingar við að hlutafjárútboð fari fram í ágúst.

Ástæðan fyrir seinkuninni er sú að ennþá standa yfir viðræður við kröfuhafa, t.d. flugvélaleigusala og færsluhirða. Til síðarnefnda hópsins tilheyrir franska fyrirtækið Ingenico en það sá einnig um greiðslumiðlum fyrir WOW air. Talsmenn Ingenico hafa ekki viljað tjáð sig við Túrista um stöðu viðræðna við Icelandair.

Sambærileg svör fást frá blaðafulltrúum Boeing. Stjórnendur Icelandair hafa áður gefið út að viðræðurnar við bandaríska flugvélaframleiðandann snúist um frekari bætur vegna kyrrsetningar MAX vélanna og afhendingu á útistandandi flugvélum.

Í tilkynningu Icelandair í morgun segir að fyrirtæki vinni nú með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum að útfærslu ríkisábyrgðar á láni til félagsins. Sú lánafyrirgreiðsla verði háð samkomulagi við kröfuhafa og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.

„Fari svo að samningaviðræður skili ekki tilætluðum árangri, mun félagið þurfa að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu án aðkomu íslenskra stjórnvalda. Slíkt ferli gæti tekið allt að tólf mánuði og á meðan á því stæði þyrfti félagið að fresta öllum greiðslum til fjármögnunaraðila félagsins,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að það sé mat stjórnenda Icelandair samsteypunnar að fjárhagsleg endurskipulagning sem byggi á gagnkvæmum samningum við kröfuhafa sé ákjósanlegasta leiðin til að tryggja hagsmuni allra aðila, þar með talið hluthafa, fjármögnunaraðila, birgja, viðskiptavina og starfsfólks.

Handbært fé Icelandair samsteypunnar er nú um 150 milljónir Bandaríkjadala (tæplega 21 milljarður íslenskra króna), sem er það umfram þriggja mánaða rekstrarkostnað miðað við núverandi aðstæður. Gera má ráð fyrir að töluverður hluti upphæðarinnar sé skuldbinding félagsins gagnvart farþegum sem eiga pantað far með Icelandair á komandi mánuðum.