Segir að engum hefði dottið í hug að leggja á svona hátt inngöngugjald

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar er ósáttur við fimmtán þúsund króna sýnatökugjaldið sem innheimt verður af ferðamönnum sem koma til landsins. Og þar með líka Íslendingum sem snúa heim úr fríi.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.

Ísland er eitt þeirra Evrópuríkja sem opna landamæri sín um miðjan þennan mánuð. Hér verður það gert að skilyrði að bæði útlendingar sem koma til landsins sem og Íslendingar framvísi neikvæðum niðurstöðum í Covid-19 prófi eða fari í sýnatöku við komuna til landsins.

Þess háttar krafa verður ekki viðhöfð við landamæri hinna Evrópulandanna sem eru að opna inn til sín. Í Hollandi, Tékklandi og Eistlandi hafa stjórnvöld til að mynda flokkað þjóðir álfunnar eftir líkunum á að þær beri kórónaveiruna.

Í Eistlandi er miðað við að opna landamærin gagnvart löndum þar sem dauðsföll vegna Covid eru færri en 15 á hverja 100 þúsund íbúa. Í Tékklandi verður þegnum nítján Evrópulanda frjálst að ferðast til landsins án þess að fara í sýnatöku á meðan aðrar þurfa í þess háttar. Hollendingar takmarka ferðafrelsið við allar Evrópuþjóðir nema Breta, Svía og Dani.

Sýnatökurnar sem fara fram hér verða á kostnað hins opinbera fyrsta hálfa mánuðinn en frá og með fyrsta júlí þurfa ferðamenn og Íslendingar að greiða fimmtán þúsund krónur fyrir hvert sýni.

„Undanfarin ár hefur mikil umræða átt sér stað um skattlagningu á ferðamenn, en engum hefur dottið í hug að leggja fimmtán þúsund króna inngöngugjald á ferðamenn sem koma til landsins. Í raun er verið að gera það núna,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar um hið nýja gjald.

Hann telur galdið alltof hátt og í raun virka eins og skattlagningu og segir að strax eftir tilkynningu stjórnvalda hafi afbókanir á Íslandsferðum streymt inn til ferðaþjónustufyrirtækja.

„Það getur vel verið að það sé skynsamlegt að ferðamenn taki þátt í kostnaði við sýnatökur en gjaldið verður þá að vera mun lægra. Ég skora á stjórnvöld að endurskoða þessi mál,“ bætir Jóhannes við.