Segir stjórnvöld loka augunum fyrir vandanum

Framkvæmdastjóri Nordic Visitor segir aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda verða til þess að störf muni hverfa, neytendur tapa fé og ríkissjóður fari á mis við skatttekjur til lengri tíma.

Ásberg Jónsson er framkvæmdastjóri og eigandi ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor. Fyrirtækið er eitt það stærsta í skipulagningu á Íslandsferðum. Mynd: Nordic Visitor

Allt frá að heimsfaraldurinn hófst og landamæri lokuðust hafa flugfélög og ferðaskrifstofur þurft að fella niður allar sínar ferðir. Á sama tíma hefur sala á nýjum reisum verið lítil sem engin vegna óvissunnar.

Þegar ferðum er aflýst þá eiga neytendur rétt á endurgreiðslu innan fjórtán daga. En það hefur reynst mörgum ferðaskrifstofum erfitt að mæta þessari kröfu í núverandi stöðu þegar tekjurnar eru engar.

Af þeim sökum hafa stjórnvöld víða í Evrópu reynt að koma til móts við ferðaskrifstofur með einhverjum hætti og líka hér heima. Nú er aftur á móti ljóst að frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, þess efnis að heimila ferðaskrifstofum að gefa út inneignarbréf, í stað þess að endurgreiða ferðir, nýtur ekki stuðnings á Alþingi.

Aðspurður um stöðuna þá segir Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor, það sorglegt að fylgjast með fréttum um vanda margra fyrirtækja vegna ástandsins. Nefnir hann sem dæmi hótanir sem starfsmönnum ferðaskrifstofa hafa borist og svo baráttu framhaldsskólanema sem og annarra við að fá endurgreitt.

„Það er ljóst að kerfið og þau íþyngjandi lög sem gilda um starfsemi ferðaskrifstofa gerðu aldrei ráð fyrir þeim efnahagslegu hamförum sem dunið hafa á heimsbyggðinni. Fá fyrirtæki hafa því lent í eins miklum rekstrarvanda eins og ferðaskrifstofur,“ segir Ásberg.

Og ástæðan, að hans mati, er krafan um endurgreiðslu innan fjórtán daga frá því að ferð er felld niður. Jafnvel þó viðkomandi ferðaskrifstofa hafi verið búin að greiða birgjum fyrirfram og vinna alla sína vinnu fyrir hönd viðskiptavinarins.

„Staða ferðaskrifstofa hér á landi er þó mjög misjöfn eftir eðli og styrk en það er ljóst að fjöldi ferðaskrifstofa mun ekki komast í gegnum þetta mikla mótstreymi þó svo að verið sé að opna landið,“ bætir hann við.

„Það sem er þó sorglegast í þessu öllu er að yfirvöld hér á landi hefðu getað afstýrt þessu og tryggt neytendum endurgreiðslu með því að veita ferðaskrifstofum tímabundið lán til að endurgreiða eða í það minnsta boðið aðgang að brúarláni líkt og flest önnur rekstrarfélög geta sótt um. Lán til ferðaskrifstofa væru áhættulítil lán þar sem hægt væri að breyta lögum og veita veð í gjaldþrotatryggingu viðkomandi ferðaskrifstofa,“ fullyrðir Ásberg.

Hann segir að slík lán hefðu tryggt endurgreiðslur til viðskiptavina strax og stuðlað að áframhaldandi starfsemi viðkomandi fyrirtækis.

„Flest allar þjóðir Evrópu hafa viðurkennt vandann og hafa því annað hvort ákveðið að lána ferðaskrifstofum tímabundið eða gefið þeim heimild til að fresta endurgreiðslum til viðskiptavina. Ferðaskrifstofur eru toppurinn á dreifikeðju ferðaþjónustu og því hafa þessar þjóðir farið í aðgerðir til að viðhalda þessari mikilvægu starfsemi sem og að tryggja endurgreiðslur til neytenda,“ segir Ásberg.

Hann segir að nú sé staðan sú hér á landi að margar ferðaskrifstofur þurfi að verða gjaldþrota svo neytendur fái endurgreitt. „Það mun taka langan tíma að afgreiða slíkt og óljóst í dag hvort slíkar tryggingar nægi fyrir fullum endurgreiðslum.“