Setja stefnuna á Spán í júlí

Bæði Úrval-Útsýn og VITA ætla að bjóða upp á ferðir til Tenerife og Alicante en hjá Heimsferðum verður beðið lengur.

Við sundlaugarbakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Þann 11. júlí er á dagskrá brottför til Tenerife á vegum Úrval-Útsýn og VITA. Tveimur dögum síðar bjóða ferða­skrif­stof­urnar tvær svo upp á ferð til Alicante og flogið verður viku­lega til þessara tveggja vinsælu sólar­staða út sumarið.

„Við skynjum mikinn áhuga Íslend­inga og höfum fengið mikið af fyrir­spurnum upp á síðkastið á báða staðina. Ekki síst vegna þess að Spán­verjar ákváðu að flýta opnun landsins til 21. júní, ” segir Þráinn Vigfúnsson, fram­kvæmda­stjóri VITA, í svari til Túrista.

Hann segir ástandið á Spáni óðum vera að komast í fyrra horf þar sem hótel, matsölustaðir, skemmti­garðar, strandir og annað sem ferða­menn sækja í eru smátt og smátt að opnast. „Þó með fyllstu varkárni enda eiga Spán­verjar mikið undir því að vel takist til með opnun landsins,” bætir Þráinn við.

VITA tilheyrir Icelandair samsteyp­unni og flýgur farþegum sínum suður á bóginn í þotum Icelandair. Með í för verða viðskipta­vinir Úrval-Útsýn og að sögn Þórunnar Reyn­is­dóttur, forstjóra ferða­skrif­stof­unnar, þá fer sala á Spán­ar­ferð­unum vel af stað. Hún segir að bókanir hafi borist strax í kjölfar þess að fyrstu brott­far­irnar voru settar í sölu.

Auk VITA og Úrval-Útsýn þá hefur ferða­skrif­stofan Heims­ferðir verið mjög stórtæk í skipu­lagn­ingu á sólar­landa­ferðum fyrir Íslend­inga. Þar á bæ er hins vegar ekki gert ráð fyrir ferðum til Spánar fyrr en í sept­ember.

Jón Karl Ólafsson, stjórn­ar­formaður Heims­ferða, segir að eftir­spurn sé því miður hæg á meðan óvissa varir. „Við miðum okkar áætlanir við byrjun sept­ember en getum bætt við ferðum með stuttum fyrir­vara ef breyting verður á eftir­spurn á næstu dögum og vikum.”