Setja stefnuna á Spán í júlí

Bæði Úrval-Útsýn og VITA ætla að bjóða upp á ferðir til Tenerife og Alicante en hjá Heimsferðum verður beðið lengur.

Við sundlaugarbakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Þann 11. júlí er á dagskrá brottför til Tenerife á vegum Úrval-Útsýn og VITA. Tveimur dögum síðar bjóða ferðaskrifstofurnar tvær svo upp á ferð til Alicante og flogið verður vikulega til þessara tveggja vinsælu sólarstaða út sumarið.

„Við skynjum mikinn áhuga Íslendinga og höfum fengið mikið af fyrirspurnum upp á síðkastið á báða staðina. Ekki síst vegna þess að Spánverjar ákváðu að flýta opnun landsins til 21. júní, “ segir Þráinn Vigfúnsson, framkvæmdastjóri VITA, í svari til Túrista.

Hann segir ástandið á Spáni óðum vera að komast í fyrra horf þar sem hótel, matsölustaðir, skemmtigarðar, strandir og annað sem ferðamenn sækja í eru smátt og smátt að opnast. „Þó með fyllstu varkárni enda eiga Spánverjar mikið undir því að vel takist til með opnun landsins,“ bætir Þráinn við.

VITA tilheyrir Icelandair samsteypunni og flýgur farþegum sínum suður á bóginn í þotum Icelandair. Með í för verða viðskiptavinir Úrval-Útsýn og að sögn Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra ferðaskrifstofunnar, þá fer sala á Spánarferðunum vel af stað. Hún segir að bókanir hafi borist strax í kjölfar þess að fyrstu brottfarirnar voru settar í sölu.

Auk VITA og Úrval-Útsýn þá hefur ferðaskrifstofan Heimsferðir verið mjög stórtæk í skipulagningu á sólarlandaferðum fyrir Íslendinga. Þar á bæ er hins vegar ekki gert ráð fyrir ferðum til Spánar fyrr en í september.

Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður Heimsferða, segir að eftirspurn sé því miður hæg á meðan óvissa varir. „Við miðum okkar áætlanir við byrjun september en getum bætt við ferðum með stuttum fyrirvara ef breyting verður á eftirspurn á næstu dögum og vikum.“