Spænsku flugfélögin bíða með Ísland fram í sumarlok

Stjórnendur Iberia Express og Vueling ætla að hefja flug til Skandinavíku í byrjun næsta mánaðar en þeir ætla að bíða lengur með ferðirnar til Íslands.

Frá Barceloneta ströndinni í Barcelona. Mynd: Ucrezia Carnelos / Unsplash

Það verður alla vega bið fram til fyrsta ágúst eftir því að þotur Vueling taki stefnuna á Keflavíkurflugvöll á ný. Á heimasíðu þessa spænska lággjaldaflugfélags hafa nefnilega allar ferðir til Íslands í júní og júlí verið teknar út.

Aftur á móti gera stjórnendur flugfélagsins ráð fyrir að hefja flug til Skandinavíu í byrjun júlí. Íslandsflugið kemst því síðar á dagskrá hjá Vueling.

Sömu sögu er að segja af Iberia Express. Það félag býður upp á reglulegar ferðir til Óslóar, Stokkhólms og Kaupmannahafnar frá byrjun júlí. Fyrsta ferðin til Íslands er ekki fyrr en í byrjun september.

Upphaflegar sumaráætlanir Norwegian og Icelandair gerðu einnig ráð fyrir tíðum ferðum milli Íslands og Spánar í sumar. Icelandair hefur þó gefið út að ekkert verði af ferðum félagsins frá Barcelona á þessari vertíð. Brottfarir til Madrídar eru ennþá á dagskrá samkvæmt bókunarvél flugfélagsins.

Staðan á flugi Norwegian er aftur á móti óljós. Félagið hefur lokað allri starfsemi á Spáni en engu að síður er opið fyrir bókanir á flugi hingað frá Alicante og Barcelona í haust. Ítrekaðar tilraunir Túrista til að fá skýr svör frá félaginu varðandi þessar ferðir hafa ekki skilað árangri.

Þess ber að geta að stærstu ferðaskrifstofur landsins halda úti sínu eigin Spánarflugi og þá helst til þeirra áfangastaða sem sólþyrstir Íslendingar venja komur sínar.