Spænsku flug­fé­lögin bíða með Ísland fram í sumarlok

Stjórnendur Iberia Express og Vueling ætla að hefja flug til Skandinavíku í byrjun næsta mánaðar en þeir ætla að bíða lengur með ferðirnar til Íslands.

Frá Barceloneta ströndinni í Barcelona. Mynd: Ucrezia Carnelos / Unsplash

Það verður alla vega bið fram til fyrsta ágúst eftir því að þotur Vueling taki stefnuna á Kefla­vík­ur­flug­völl á ný. Á heima­síðu þessa spænska lággjalda­flug­fé­lags hafa nefni­lega allar ferðir til Íslands í júní og júlí verið teknar út.

Aftur á móti gera stjórn­endur flug­fé­lagsins ráð fyrir að hefja flug til Skandi­navíu í byrjun júlí. Íslands­flugið kemst því síðar á dagskrá hjá Vueling.

Sömu sögu er að segja af Iberia Express. Það félag býður upp á reglu­legar ferðir til Óslóar, Stokk­hólms og Kaup­manna­hafnar frá byrjun júlí. Fyrsta ferðin til Íslands er ekki fyrr en í byrjun sept­ember.

Upphaf­legar sumaráætlanir Norwegian og Icelandair gerðu einnig ráð fyrir tíðum ferðum milli Íslands og Spánar í sumar. Icelandair hefur þó gefið út að ekkert verði af ferðum félagsins frá Barcelona á þessari vertíð. Brott­farir til Madrídar eru ennþá á dagskrá samkvæmt bókun­arvél flug­fé­lagsins.

Staðan á flugi Norwegian er aftur á móti óljós. Félagið hefur lokað allri starf­semi á Spáni en engu að síður er opið fyrir bókanir á flugi hingað frá Alicante og Barcelona í haust. Ítrek­aðar tilraunir Túrista til að fá skýr svör frá félaginu varð­andi þessar ferðir hafa ekki skilað árangri.

Þess ber að geta að stærstu ferða­skrif­stofur landsins halda úti sínu eigin Spán­ar­flugi og þá helst til þeirra áfanga­staða sem sólþyrstir Íslend­ingar venja komur sínar.