Staðfestir að Lufthansa hefji flug til Íslands á ný

Hið þýska Lufthansa verður með þrjár ferðir í viku hingað frá og með byrjun næsta mánaðar.

lufthansa andreas koster
Andreas Köster, svæðisstjóri Lufthansa á Bretalandi og Íslandi. Mynd: Lufthansa

„Það er ánægjulegt fyrir Lufthansa að tilkynna að í byrjun júlí hefjum við flug til Íslands á ný,“ segir Andreas Köster, svæðisstjóri hjá Lufthansa, í svari við fyrirspurn Túrista. En líkt og áður hefur komið fram þá var Ísland ekki einn af þeim áfangastöðum sem þýska félagið setti í forgang nú í sumarbyrjun.

Til að byrja með munu þotur Lufthansa fljúga hingað tvisvar í viku frá Frankfurt og vikulega frá Munchen. Íslenskir farþegar geta þá fundið tengiflug áfram með félaginu frá þessum flugvöllum lengra út í heim.

Ekki liggur þó fyrir nákvæmlega hvaða vikudaga verður flogið nema til að byrja með munu brottfarirnar frá Keflavíkurflugvelli til Frankfurt vera á dagskrá á fimmtudögum og laugardögum.

Fyrir kórónaveirufaraldurinn þá flaug Lufthansa hingað allt árið um kring frá Frankfurt og yfir sumarmánuðina frá Munchen.

Forstjóri þýska félagsins sagði á fundi með hluthöfum í gær að ætlunin væri að halda áfram flugi til sem flestra áfangastaða nú þegar flugsamgöngur eru að hefjast á ný. Hins vegar sagði forstjórinn að tíðni ferða yrði takmarkaðri en fyrir heimsfaraldurinn.


Kæri lesandi,
ef þér þykir gagn í skrifum Túrista þá bendi ég þér á styrktarsíðu útgáfunnar. Þar er hægt að leggja henni lið með eingreiðslu eða mánaðarlegum styrkjum.

Með fyrirfram þökk,
Kristján Sigurjónsson