Svona verður staðið að endur­reisn SAS

Nýtt hlutafé, skuldabréfaútgáfa og umfangsmiklar uppsagnir eiga að koma SAS á flug á ný.

Rickard Gustafson forstjóri SAS leiddi félagið í gegnum mikla endurskipulagninu árið 2012 og nú bíður ennþá stærra verkefni. MYND: SAS

Strax í upphafi Covid-19 farald­ursins fékk SAS vilyrði fyrir lánum frá ríkis­stjórnum Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Það varð þó fljót­lega ljóst að það eitt myndi ekki duga til að koma félaginu í gegnum krísuna sem ennþá sér ekki fyrir endann á.

Þannig full­yrti stjórn­ar­mað­urinn Jacob Wallen­berg, full­trúi stærsta einka­fjár­fest­isins í félaginu, að það væri í raun aðeins á færi hins opin­bera að endur­ræsa flug­félög. Vísaði hann til þess að stærstu eigendur SAS eru danska og sænska ríkið. Wallen­berg viðraði einnig þá hugmynd að Norð­menn myndu á ný koma inn í hlut­hafa­hópinn.

Möguleg fjár­festing norska ríkisins í SAS var í fram­haldinu meðal annars til umræðu á norska þinginu. Nú liggur þó ljóst fyrir að Noregur eignast ekki hlut í SAS á ný samkvæmt tilkynn­ingu sem flug­fé­lagið sendi frá sér nú í morg­uns­árið.

Þar segir að nú sé ætlunin að afla flug­fé­laginu um 12 millj­arða sænskra króna eða um 179 millj­arða íslenskra króna. Helm­ingur upphæð­ar­innar kemur í gegnum hluta­fjárút­gáfu og hinn helm­ing­urinn með útgáfu skulda­bréfa.

Stærstu hlut­hafar SAS, danska og sænska ríkið auk Wallen­berg sjóðsins, munu leggja félaginu til stærsta hluta fjár­sins en ekki liggur fyrir hvernig eigna­hlut­föllinn breytast í kjöl­farið. Í dag er sænska ríkið stærsti hlut­hafinn í SAS með tæp 15 prósent en danska ríkið með rúm fjórtán prósent. Wallen­berg sjóð­urinn á um 6 prósent.

Á sama tíma mun SAS grípa til umfangs­mik­illa sparn­að­ar­að­gerða sem eiga að skila um fjórum millj­örðum sænskra króna. Hluti af því eru hinar gríð­ar­legu uppsagnir sem boðaðar hafa verið. Þannig verður starfs­mönnum félagsins fækkað úr ellefu í fimm þúsund. Auk þess er vonast til að vinnu­framlag þeirra sem eftir eru muni aukast um 20 til 25 prósent.

Þar er sérstak­lega horft til flugáhafna samkvæmt því sem Dagens Næringsliv hefur eftir Rickard Gustafson, forstjóra SAS, nú í morgun. Hann tilgreinir einnig að fleiri þotur verði teknar úr umferð yfir vetr­ar­mán­uðina og eins muni viðhald flug­véla færast meira yfir í nætur­vinnu.

Auk alls þessa þá ætlast SAS til þess að birgjar félagsins muni semja um betri skil­mála og eins stendur til að leggja eldri flug­vélum mun fyrr en áður var gert ráð fyrir.