Svona verður staðið að endurreisn SAS

Nýtt hlutafé, skuldabréfaútgáfa og umfangsmiklar uppsagnir eiga að koma SAS á flug á ný.

Rickard Gustafson forstjóri SAS leiddi félagið í gegnum mikla endurskipulagninu árið 2012 og nú bíður ennþá stærra verkefni. MYND: SAS

Strax í upphafi Covid-19 faraldursins fékk SAS vilyrði fyrir lánum frá ríkisstjórnum Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Það varð þó fljótlega ljóst að það eitt myndi ekki duga til að koma félaginu í gegnum krísuna sem ennþá sér ekki fyrir endann á.

Þannig fullyrti stjórnarmaðurinn Jacob Wallenberg, fulltrúi stærsta einkafjárfestisins í félaginu, að það væri í raun aðeins á færi hins opinbera að endurræsa flugfélög. Vísaði hann til þess að stærstu eigendur SAS eru danska og sænska ríkið. Wallenberg viðraði einnig þá hugmynd að Norðmenn myndu á ný koma inn í hluthafahópinn.

Möguleg fjárfesting norska ríkisins í SAS var í framhaldinu meðal annars til umræðu á norska þinginu. Nú liggur þó ljóst fyrir að Noregur eignast ekki hlut í SAS á ný samkvæmt tilkynningu sem flugfélagið sendi frá sér nú í morgunsárið.

Þar segir að nú sé ætlunin að afla flugfélaginu um 12 milljarða sænskra króna eða um 179 milljarða íslenskra króna. Helmingur upphæðarinnar kemur í gegnum hlutafjárútgáfu og hinn helmingurinn með útgáfu skuldabréfa.

Stærstu hluthafar SAS, danska og sænska ríkið auk Wallenberg sjóðsins, munu leggja félaginu til stærsta hluta fjársins en ekki liggur fyrir hvernig eignahlutföllinn breytast í kjölfarið. Í dag er sænska ríkið stærsti hluthafinn í SAS með tæp 15 prósent en danska ríkið með rúm fjórtán prósent. Wallenberg sjóðurinn á um 6 prósent.

Á sama tíma mun SAS grípa til umfangsmikilla sparnaðaraðgerða sem eiga að skila um fjórum milljörðum sænskra króna. Hluti af því eru hinar gríðarlegu uppsagnir sem boðaðar hafa verið. Þannig verður starfsmönnum félagsins fækkað úr ellefu í fimm þúsund. Auk þess er vonast til að vinnuframlag þeirra sem eftir eru muni aukast um 20 til 25 prósent.

Þar er sérstaklega horft til flugáhafna samkvæmt því sem Dagens Næringsliv hefur eftir Rickard Gustafson, forstjóra SAS, nú í morgun. Hann tilgreinir einnig að fleiri þotur verði teknar úr umferð yfir vetrarmánuðina og eins muni viðhald flugvéla færast meira yfir í næturvinnu.

Auk alls þessa þá ætlast SAS til þess að birgjar félagsins muni semja um betri skilmála og eins stendur til að leggja eldri flugvélum mun fyrr en áður var gert ráð fyrir.