Tækifæri fyrir lággjaldaflugfélög í neyðarsamningum Lufthansa

Lufthansa verður að gefa eftir lendingarleyfi í Frankfurt og Munchen í kjölfar þess að þýsk stjórnvöld komu félaginu til bjargar.

Nú verður Lufthansa að gefa eftir hluta af lendingarleyfum sínum á flugvellinum í Frankfurt. Mynd: Frankfurt Airport

Þrátt fyrir að rekstur Lufthansa Group hafi skilað hagnaði síðustu ár þá kemst samsteypan ekki í gegnum kórónuveirukreppuna án ríkisaðstoðar. Þýska stjórnvöld ætla því að koma félaginu til bjargar með níu milljarða evru innspýtingu. Í staðinn eignast hið opinbera fimmtungs hlut á fyrirtækinu. Stefnt er að því að þau hlutabréf verði seld í síðasta lagi árið 2023.

Evrópusambandið var tilbúið til að samþykkja þessa ríkisaðstoð gegn því að Lufthansa afsalaði sér sjötíu og tveimur lendingarleyfum á flugvöllunum í Frankfurt og Munchen. Í þessum tveimur borgum stendur flugfélagið fyrir ríflega helmingi brottfara.

Stjórnendur Lufthansa voru þó ekki tilbúnir til að kyngja þessum kröfum og í kjölfarið lækkaði ESB skilyrði sitt niður í tuttugu og fjögur lendingarleyfi.

Það sætti forsvarsfólk Lufthansa sig við og vóg þar þungt að eingöngu verður hægt að úthluta leyfunum til nýrra flugfélaga í borgunum tveimur. Þar með er útilokað að Ryanair geti fengið leyfin sem Lufthansa skilur eftir í Frankfurt. Írska lággjaldaflugfélagið getur aftur á móti reynt við lausu lendingarleyfin í Munchen.

Hið breska easyJet getur svo farið hina leiðina og því það félag er í dag með flug til Munchen en ekki til Frankfurt.

Og forstjóri ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air sér líka tækifæri í þessari stöðu. Hann bendir á í viðtali við Bloomberg á að Lufthansa verði að endurskipuleggja rekstur sinn vegna ástandsins og þar með opnist möguleikar fyrir Wizz Air á þýska markaðnum.

Innan Lufthansa Group eru líka stærstu flugfélög Austurríkis, Belgíu og Sviss.