Tékkar gefa grænt ljós á íslenska túrista

Þegnar nítján Evrópuríkja þurfa ekki að sýna fram á neikvæðar niðurstöður í Covid-19 prófi þegar þeir heimsækja Tékkland. Þar á meðal eru Íslendingar en Tékkar þurfa þó að sanna að þeir eru smitlausir þegar þeir lenda á Keflavíkurflugvelli.

Þann 17. júní hefst áætlunarflug á ný frá Prag til Íslands. Mynd: Alejandro Cartagena / Unsplash

Þann fimmtánda júní ætla Tékkar, líkt og Íslendingar, að opna landamæri sín fyrir ferðafólki frá Evrópu. Af þeim sökum hafa tékknesk stjórnvöld tekið upp litakerfi til að flokka þjóðir álfunnar með tilliti til útbreiðslu kórónaveirunnar í viðkomandi löndum.

Í græna flokkinn fara þær þjóðir sem Tékkar telja ólíklegar til að bera Covid-19 yfir landamærin. Nítján lönd, þar á meðal Ísland, flokkast sem græn hjá tékkneskum yfirvöldum og þurfa þegnar þeirra ekki að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr nýju smitprófi við komuna til Tékklands.

Það þurfa aftur á móti íbúar appelsínugulu ríkjanna að gera. Þar á meðal eru Danir, Portúgalir, Hollendingar og Írar eins og sjá má á kortinu hér fyrir neðan sem Adam Vojtéch, heilbrigðisráðherra Tékklands, birti á Twitter. Tékkar sem snúa heim frá þessum löndum þurfa þó ekki í próf.

Bretar og Svíar er svo einu þjóðirnar sem lenda í rauða hópnum og verða ferðamenn þaðan prófaðir við komuna til Tékklands.

Tékkar hafa líkt og mörg lönd í austurhluta Evrópu komist nokkuð vel frá heimsfaraldrinum. Þar voru staðfest smit rétt rúmlega 9 þúsund í byrjun vikunnar og er 321 dauðsfall rakið til Covid-19.

Tékkneska flugfélagið Czech Airliens ætlar að hefja Íslandsflug frá Prag á ný þann 17. júní og verða farnar tvær ferðir í viku. Tékkar sem hingað koma þurfa þó að sýna fram á neikvæðar niðurstöður í nýju prófi við kórónaveirunni. Öfugt við þá Íslendinga sem halda til Tékklands nú í sumarbyrjun.