Þverr­andi samstaða í röðum flug­freyja og flug­þjóna

Ört stækkandi hópur innan Félags íslenskra flugfreyja ber ekki lengur traust til samninganefndar félagsins og vill að kosið verði um nýjan kjarasamning. Fólkið í hópnum er tilbúið í meiri vinnu fyrir sömu kjör og að eldri hvíldarákvæði falli niður.

icelandair radir
Mynd: Icelandair

Nú eftir helgi ætla stjórn­endur Icelandair að ljúka samn­inga­við­ræðum við kröfu­hafa, Boeing flug­véla­fram­leið­andann og íslensk stjórn­völd í tengslum við komandi hluta­fjárútboð. Einnig var lagt upp með að lang­tíma kjara­samn­ingar við flug­virkja, flug­menn og flug­freyjur yrðu frágegnir áður en fjár­festa­kynning verður gefin út í næstu viku.

Tveir fyrr­nefndu hóparnir hafa samið en það hefur FFÍ, Flug­freyju­félag Íslands, ekki gert. Icelandair sagði upp nærri níu hundruð flug­freyjum og flug­þjónum vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla kóróna­veirunnar hefur haft á starf­semina. Aðeins 41 flug­freyja hélt starfi sínu en Icelandair, líkt og mörg önnur flug­félög, rær nú lífróður vegna heims­far­ald­ursins.

Innan raða Flug­freyju­fé­lagsins ríkir vaxandi ólga með stöðu mála. „Fólk vill meiri upplýs­ingar og líka þær réttu. Staðan í samn­inga­við­ræð­unum er þannig ávallt kynnt með neikvæðum formerkjum jafnvel þó við sjáum í tilboð­unum að Icelandair hefur komið til móts við kröfur okkar að einhverju leyti. Við erum þó tilbúin til að falla frá hvíld­ar­á­kvæðum og taka á okkur meiri vinnu fyrir sömu laun,“ segir viðmæl­andi Túrista.

Sá hefur unnið lengi sem flug­verji hjá Icelandair og er full­trúi hóps um þrjú hundruð félags­manna í FFÍ sem vill að undir­skrif­aður kjara­samn­ingur verði borin undir atkvæði sem fyrst.

Viðkom­andi vill þó ekki koma fram undir nafni og vísar til þess að gagn­rýni á samn­inga­nefnd Flug­freyju­fé­lagsins sé jafnan illa tekið. „Þess vegna tjáir fólk sig bara í lokuðum hópum,” segir viðmæl­andi Túrista.

Einn helsti ásteit­ing­ar­steinninn í viðræðum FFÍ og Icelandair er hvíld­ar­á­kvæði sem felur í sér að áhafnir félagsins mega í mesta lagi vinna fimmtíu blokktíma á fimmtán dögum. En blokktími er sá tími sem líður frá því flugvél fer frá flug­stæði fyrir brottför og þar til hún er komin á flug­stæði á áfanga­stað. 

Félag íslenskra atvinnuflug­manna gaf þetta hvíld­ar­á­kvæði eftir í samn­ingum við Icelandair sem undir­rit­aðir voru í síðasta mánuði. Og fyrr­nefndur hópur flug­freyja og flug­þjóna vill slíkt hið sama. „Það er ekki forsvar­an­legt að ríghalda í eldri hvíld­ar­á­kvæði við þessar aðstæður sem uppi eru. Icelandair og önnur flug­félög eru í mjög þröngri stöðu vegna Covid-19,” segir viðmæl­andi Túristi.

„Samn­ing­arnir stranda helst á þessu ákvæði en segja má það barn síns tíma enda sett þegar almennar reglur um hámarks vinnu­tíma voru ekki eins strangar og þær eru í dag. Með því að fella þetta úr gildi þá verður t.d. hægt að fara fram á að flug­freyja fari í flug frá Kaup­manna­höfn og svo beint áfram til aust­ur­strandar Banda­ríkj­anna við komuna til Kefla­vík­ur­flug­vallar. Þetta gera flug­menn í sumum tilfellum í dag og við ættum að geta það líka þó vissu­lega auki þetta álagið,” segir viðmæl­andi Túrista úr röðum flug­freyja.

Í yfir­stand­andi kjara­við­ræðum er forsvars­fólk Icelandair einnig að fara fram á hækka lágmarks vinnu­framlag félaga í FFÍ. Laun hækka aftur á móti ekki en þau yrðu leið­rétt aftur­virkt árið 2023. Þessi krafa Icelandair felur í sér að núver­andi launa­trygging færist úr 65 blokktímum á mánuði í 70 hjá fast­ráðnum flug­freyjum og flug­þjónum. Þau sem eru á tíma­bundnum samn­ingi fara í 75 blokktíma og laus­ráðnir í 78 tíma. Áfram er hámarkið 85 tímar á mánuði en þó yfir allt árið. Í dag er það 10 tímum lægra yfir vetr­ar­mán­uðina.

„Þetta er í takt við vinnu­framlag áhafna annarra flug­fé­laga. Það er því ekki rétt að farið sé fram á 100 blokktíma á mánuði eins og talað hefur verið um. Hámarkið er áfram 85 tímar,“ segir viðmæl­andi Túrista og full­trúi þess hóps félags­manna í FFÍ sem er ósáttur við störf samn­inga­nefndar félagsins í núver­andi viðræðum við Icelandair.

Ekki náðist í formann FFÍ við vinnslu þess­arar fréttar.