Samfélagsmiðlar

Þverrandi samstaða í röðum flugfreyja og flugþjóna

Ört stækkandi hópur innan Félags íslenskra flugfreyja ber ekki lengur traust til samninganefndar félagsins og vill að kosið verði um nýjan kjarasamning. Fólkið í hópnum er tilbúið í meiri vinnu fyrir sömu kjör og að eldri hvíldarákvæði falli niður.

icelandair radir

Nú eftir helgi ætla stjórnendur Icelandair að ljúka samningaviðræðum við kröfuhafa, Boeing flugvélaframleiðandann og íslensk stjórnvöld í tengslum við komandi hlutafjárútboð. Einnig var lagt upp með að langtíma kjarasamningar við flugvirkja, flugmenn og flugfreyjur yrðu frágegnir áður en fjárfestakynning verður gefin út í næstu viku.

Tveir fyrrnefndu hóparnir hafa samið en það hefur FFÍ, Flugfreyjufélag Íslands, ekki gert. Icelandair sagði upp nærri níu hundruð flugfreyjum og flugþjónum vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla kórónaveirunnar hefur haft á starfsemina. Aðeins 41 flugfreyja hélt starfi sínu en Icelandair, líkt og mörg önnur flugfélög, rær nú lífróður vegna heimsfaraldursins.

Innan raða Flugfreyjufélagsins ríkir vaxandi ólga með stöðu mála. „Fólk vill meiri upplýsingar og líka þær réttu. Staðan í samningaviðræðunum er þannig ávallt kynnt með neikvæðum formerkjum jafnvel þó við sjáum í tilboðunum að Icelandair hefur komið til móts við kröfur okkar að einhverju leyti. Við erum þó tilbúin til að falla frá hvíldarákvæðum og taka á okkur meiri vinnu fyrir sömu laun,“ segir viðmælandi Túrista.

Sá hefur unnið lengi sem flugverji hjá Icelandair og er fulltrúi hóps um þrjú hundruð félagsmanna í FFÍ sem vill að undirskrifaður kjarasamningur verði borin undir atkvæði sem fyrst.

Viðkomandi vill þó ekki koma fram undir nafni og vísar til þess að gagnrýni á samninganefnd Flugfreyjufélagsins sé jafnan illa tekið. „Þess vegna tjáir fólk sig bara í lokuðum hópum,” segir viðmælandi Túrista.

Einn helsti ásteitingarsteinninn í viðræðum FFÍ og Icelandair er hvíldarákvæði sem felur í sér að áhafnir félagsins mega í mesta lagi vinna fimmtíu blokktíma á fimmtán dögum. En blokktími er sá tími sem líður frá því flugvél fer frá flugstæði fyrir brottför og þar til hún er komin á flugstæði á áfangastað. 

Félag íslenskra atvinnuflugmanna gaf þetta hvíldarákvæði eftir í samningum við Icelandair sem undirritaðir voru í síðasta mánuði. Og fyrrnefndur hópur flugfreyja og flugþjóna vill slíkt hið sama. „Það er ekki forsvaranlegt að ríghalda í eldri hvíldarákvæði við þessar aðstæður sem uppi eru. Icelandair og önnur flugfélög eru í mjög þröngri stöðu vegna Covid-19,” segir viðmælandi Túristi.

„Samningarnir stranda helst á þessu ákvæði en segja má það barn síns tíma enda sett þegar almennar reglur um hámarks vinnutíma voru ekki eins strangar og þær eru í dag. Með því að fella þetta úr gildi þá verður t.d. hægt að fara fram á að flugfreyja fari í flug frá Kaupmannahöfn og svo beint áfram til austurstrandar Bandaríkjanna við komuna til Keflavíkurflugvallar. Þetta gera flugmenn í sumum tilfellum í dag og við ættum að geta það líka þó vissulega auki þetta álagið,” segir viðmælandi Túrista úr röðum flugfreyja.

Í yfirstandandi kjaraviðræðum er forsvarsfólk Icelandair einnig að fara fram á hækka lágmarks vinnuframlag félaga í FFÍ. Laun hækka aftur á móti ekki en þau yrðu leiðrétt afturvirkt árið 2023. Þessi krafa Icelandair felur í sér að núverandi launatrygging færist úr 65 blokktímum á mánuði í 70 hjá fastráðnum flugfreyjum og flugþjónum. Þau sem eru á tímabundnum samningi fara í 75 blokktíma og lausráðnir í 78 tíma. Áfram er hámarkið 85 tímar á mánuði en þó yfir allt árið. Í dag er það 10 tímum lægra yfir vetrarmánuðina.

„Þetta er í takt við vinnuframlag áhafna annarra flugfélaga. Það er því ekki rétt að farið sé fram á 100 blokktíma á mánuði eins og talað hefur verið um. Hámarkið er áfram 85 tímar,“ segir viðmælandi Túrista og fulltrúi þess hóps félagsmanna í FFÍ sem er ósáttur við störf samninganefndar félagsins í núverandi viðræðum við Icelandair.

Ekki náðist í formann FFÍ við vinnslu þessarar fréttar.

Nýtt efni

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …

Í marsmánuði fór fjöldi erlendra ferðamanna í Japan í fyrsta skipti yfir 3 milljónir, samkvæmt tölum sem birtar voru í síðustu viku. Um 2,7 milljónir komu í febrúar. Auðvitað nýtur japönsk ferðaþjónusta nú uppsafnaðrar löngunar erlendra ferðamanna á að heimsækja loks Japan eftir langvarandi lokun og ferðahindranir í tengslum við Covid-19 en það er ekki …

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands var heiðraður á ársfundi Meet in Reykjavik í gær. Hann leiddi til sigurs umsókn Íslands um að fá ráðstefnuna „International Geoscience and Remote Sensing Symposium (IGARSS)“ til Reykjavíkur í júlí 2027. Gert er ráð fyrir að 2.500 erlendir vísindamenn og fagfólk á sviði fjarkönnunar frá öllum heimshornum sæki ráðstefnuna …

United Airlines tilkynntu í gær um betri afkomu en vænst var á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur í framhaldi af því að tapið á fyrsta fjórðungi var minna en óttast hafði verið. Megin ástæða þess að vel gengur er einfaldlega mikill áhugi á ferðalögum. Hlutabréf í United hækkuðu strax í fyrstu viðskiptum eftir að tilkynnt var …

Japanskir bílaframleiðandur hafa dregist aftur úr nýrri fyrirtækjum á borð við bandaríska Tesla og kínverska BYD í þróun rafbílasmíði. En menn velta því fyrir sér hvort japanskir framleiðendur á borð við Toyota og Nissan verði ekki fljótir að vinna upp það forskot - og jafnvel ná forystu - með þróun nýrrar gerðar rafhlaðna, sem vonir …

„Viltu nýjan bíl? Ef svarið er já, þá þurfum við að finna pening til að kaupa bílinn. Við getum aflað hans með sjávarútvegi en sú grein er takmörkuð og margir vilja setja skorður á fiskeldi. Til að auka framleiðslu á málmum þarf meiri raforku. Þá er það ferðaþjónustan sem er eftir og því þarf að …

Yfir veturinn eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi en fyrstu þrjá mánuði þessa árs innrituðu 109 þúsund breskir farþegar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli. Fjöldinn stóð í stað frá sama tíma í fyrra en hins vegar fjölgaði brottförum útlendinga um tíund þessa þrjá mánuði. Efnahagsástandið í Bretlandi kann að skýra að það …

Því var fagnað í gær að undirrituð hefði verið viljayfirlýsingu um að Íslandshótel og fjárfestar tengdir Skógarböðunum ætluðu að byggja og reka fjögurra stjörnu hótel við Skógarböðin í Eyjafirði gegnt Akureyri. Á væntanlegu baðhóteli verða 120 herbergi. Sjallinn - MYND: Facebook-síða Sjallans Íslandshótel hafa líka haft áform um að reisa hótel í miðbæ Akureyrar, þar …