Tími aðgerða á þrotum

Forsvarsfólk Samtaka ferðaþjónustunnar segist harma aðgerðaleysi gagnvart vanda ferðaskrifstofa. Samtökin hafa undanfarna þrjá mánuði átt í samskiptum við stjórnvöld um mögulegar lausnir á aðkallandi vanda ferðaskrifstofa.

Bæði ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir Íslendinga út í heim og þær íslensku sem taka á móti erlendum ferðamönnum þurfa að endurgreiða viðskiptavinum sínum. Mynd: Nicolas J Leclercqlas J Leclercq / Unsplash

Samtök ferðaþjónustunnar telja að á síðustu þrem mánuðum hafi verið færð nægilega skýr rök fyrir sértækum aðgerðum vegna þess vanda sem ferðaskrifstofur hér á landi eru í vegna kröfu um endurgreiðslu á ferðum sem felldar hafa verið niður vegna heimsfaraldursins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum þar sem lýst er verulegum vonbrigðum með það að Alþingi og ríkisstjórn sjái sér ekki fært að koma til móts við þennan vanda ferðaskrifstofa og neytenda á neinn hátt. „Jafnvel þótt fjöldi dæma um skýrar aðgerðir vegna sama vanda liggi fyrir í fjölda annarra Evrópuríkja,“ segir í tilkynningu.

Þar segir jafnframt að ljóst er að eftir þrjá mánuði er tíminn til aðgerða á þrotum. „Lögsóknir gegn ferðaskrifstofum eru hafnar að fullum þunga og ljóst að hver dagur færir einstök fyrirtæki nú nær rekstrarstöðvun eða gjaldþroti,“ segir í tilkynningu frá SAF.

Samtök ferðaþjónustunnar leggja áherslu á að núverandi ástand tryggir ekki hagsmuni neytenda umfram þá lausn sem lögð er til í frumvarpi ferðamálaráðherra.

„Raunveruleikinn er að margar ferðaskrifstofur eiga ekki lausafé til að endurgreiða öllum viðskiptavinum sínum samkvæmt núverandi reglum. Því mun núverandi ástand að óbreyttu óhjákvæmilega leiða til rekstrarstöðvunar eða gjaldþrota í þeim hópi fyrirtækja og þannig auka verulega líkurnar á því að neytendur muni þurfa að leita endurgreiðslu úr tryggingum viðkomandi ferðaskrifstofa,“ segir tilkynningu.